Ráðherrar starfsstjórnarinnar munu formlega færa ráðherrum nýrrar ríkisstjórnar lyklana að viðeigandi ráðuneytum í dag.
Fyrstu lyklaskiptin verða klukkan 13 í Stjórnarráðinu þegar Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, tekur við forsætisráðuneytinu af Bjarna Benediktssyni.
Í kjölfarið tekur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, við utanríkisráðuneytinu og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, við félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu sem verður breytt í félags- og húsnæðismálaráðuneyti.
Lyklaskiptin verða síðan koll af kolli fram til klukkan 16.35 í menningar- og viðskiptaráðuneytinu þegar síðustu skiptin verða.
Ásamt Kristrúnu verða þrír aðrir ráðherrar úr röðum Samfylkingarinnar.
Þetta eru Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Logi Már Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og Alma Möller heilbrigðisráðherra.
Í heildina verða fjórir ráðherrar frá Viðreisn með Þorgerði Katrínu. Ásamt henni verða Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra, Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Líkt og áður sagði verður Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra. Tveir aðrir ráðherrar verða frá Flokki fólksins, en það eru Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Ásthildur Lóa Þórsdóttir mennta- og barnamálaráðherra.