Friðbert Friðbertsson forstjóri Heklu hyggst láta innrétta sex íbúðir í Drápuhlíð 14-16 í Reykjavík.
Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í fyrradag keypti félag í hans eigu, Hekla fasteignir, húseignina á 341,1 milljón króna. Ríkissjóður átti 85% í húsinu en Reykjavíkurborg 15%. Þar var opnuð heilsugæsla árið 1986 en hún fluttist yfir í Skógarhlíð 18 í fyrra. Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir kannaði hvort hið opinbera gæti haft not af húsinu en niðurstaðan var að setja það á sölu.
Kaupverðið var tæplega 54 milljónum undir ásettu verði og um 417 þúsund á fermetra. Til samanburðar er nú til sölu íbúð neðar í Drápuhlíð sem kostar 72,9 milljónir eða 819 þúsund á fermetra.
Friðbert segir að gera þurfi töluverðar breytingar á húsinu til að það henti undir íbúðir. Meðal annars þurfi að breyta innra skipulagi og láta útbúa svalir.
Áformað sé að hafa eina íbúð í kjallara. Þar sé góð lofthæð og með því að grafa niður í garðinn verði hægt að ganga beint út í garð.
Á jarðhæð og annarri hæð verði hins vegar tvær íbúðir á hvorri hæð og loks verði ein íbúð í risi.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.