„Ég hlakka mikið til. Þetta er krefjandi verkefni og það er nauðsynlegt að fá mig hingað núna,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, en hún tók við lyklunum að ráðuneytinu fyrr í dag.
Aðspurð segist henni líða dásamlega en að allt sé enn svolítið óraunverulegt.
„Ég er ekki alveg búin að lenda en ég er búin að setja hjólin niður núna, fyrst ég er komin með lyklana og þennan dásamlega fallega blómvönd.“
Stutt er til jóla og eins og flestir vita hefur Inga haft í nógu að snúast undanfarnar vikur og ekki endilega haft mikinn tíma fyrir jólaundirbúning.
Hvernig verða næstu dagar?
„Á morgun ætlar Kristrún að kalla okkur saman, nýr forsætisráðherra ætlar að kalla saman nýju ríkisstjórnina sína, og síðan fer ég heim og byrja að undirbúa jólin. Þannig að jú, jú, eitthvað verður nú um gleði og gaman með fjölskyldunni og ég hlakka bara til.“
Þá hlakkar hún til að geta hafið jólaundirbúninginn þar sem hún segist hafa eiginlega misst af öllu slíku í ár en nefnir að hún kveiki þó á útvarpinu þegar hún geti og rauli með jólalögunum.
„Það er líka þessi yndislega stemmning sem fylgir því.“
Þá nefnir hún uppsetningu jólaljósanna sem einn skemmtilegasta jólaundirbúninginn og vill hún helst hafa jólaljós út um allt.
„Mér finnst fallegast af þessu öllu að vera með sem minnst af beinum lýsingum, ég vil bara jólaljós helst út um allt og undirbúa góðan mat með fjölskyldunni.“
Segir Inga að hennar hlutverk á aðfangadagskvöld sé svo að gera „heimsins bestu humarsúpu“ sem oftast nær sé forrétturinn á heimilinu þann dag og svo á eftir fylgi „annaðhvort fyllt lambalæri eða svínahambó, eins og maður segir.“