Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, hefur afhent Eyjólfi Ármannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, lyklana að ráðuneytinu. Hann kveðst spenntur fyrir því að fara í stjórnarandstöðu og segir nýja ríkisstjórn boða útgjöld sem ekki sé ljóst hvernig verði fjármögnuð.
Hvernig líst þér á að vera búinn að skilja við ráðuneytið?
„Það er auðvitað í senn smá svona tregi yfir því en það var nú fyrirséð, þannig það er bara ágætt að það er frá. Nú get ég um frjálst höfuð strokið, farið og einbeitt mér að stjórnarandstöðunni og tekið gott jólafrí,“ segir Sigurður.
Sigurður var innviðaráðherra stóran hluta af kjörtímabilinu en tók við sem fjármála- og efnahagsráðherra eftir að Bjarni Benediktsson varð forsætisráðherra. Hann fór svo fyrir innviðaráðuneytinu í starfsstjórn þar sem Vinstri græn neituðu að taka þátt.
Aðspurður segist hann spenntur fyrir því að fara í stjórnarandstöðu.
„Ég hlakka til að veita þessari ríkisstjórn aðhald á grundvelli þess sem þau lofuðu fyrir kosningar og hvernig þau munu síðan efna það gagnvart kjósendum landsins,“ segir Sigurður.
Hann segir að margt vanti í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar miðað við málflutning flokkanna og að nokkur atriði í stjórnarsáttmálanum kalli á umtalsverð útgjöld en á sama tíma eigi að fara í hagræðingu.
„Að leggja niður ráðuneyti sem sparar nokkur hundruð milljónir mun aldrei dekka þann kostnað. Þá spyr ég bara hvernig á það að gerast á sama tíma og við ætlum að halda áfram að lækka skuldir ríkissjóðs og ná niður verðbólgu og vöxtum.“