Guðmundur Sv. Hermannsson
Persónuafsláttur og þrepamörk tekjuskatts einstaklinga hækka um 5,8% um áramótin og hækkar persónuafsláttur þá úr 64.926 krónum á mánuði í 68.691 krónu, samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í gær, laugardag.
Samkvæmt lögum um tekjuskatt hækka persónuafsláttur og þrepamörk tekjuskatts einstaklinga í upphafi hvers árs sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði að viðbættri hækkun vegna framleiðnivaxtar.
Miðað er við 1% árlega aukningu framleiðni og er það mat tekið til endurskoðunar á fimm ára fresti, næst fyrir tekjuárið 2027.
Hækkun vísitölu neysluverðs liggur nú fyrir og nemur hún 4,75% á 12 mánaða tímabili. Heildarhækkun viðmiðunarfjárhæða verður því 5,8%.
Tekjuskattsprósentan er óbreytt frá fyrra ári, sem og hámarksútsvar sveitarfélaga, en vegið meðalútsvar hækkar um 0,01 prósentustig fyrir tekjuárið 2025 og verður 14,94%.