Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telur að ríkisstjórnin komi til með að nota hefðbundna pólitíska brellu til að plata fólk áfram í umræðum um Evrópusambandið. Ekki sé hægt að greiða atkvæði um hvort halda skuli samningaviðræðum áfram þar sem Ísland er ekki umsóknarríki. Þá beri stjórnarsáttmálinn þess merki að vera ekki fullkláraður.
Þetta segir Sigmundur í samtali við mbl.is.
Eitt helsta áhyggjuefni hans varðandi nýju ríkisstjórnina sé að það verði unnið leynt og ljóst að því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.
Hann segir hins vegar að því sé pakkað inn í umbúðir sem feli hið raunverulega markmið.
„Ég ætla að nefna sem dæmi að það sé verið núna að leggja eitthvað til að greidd verði atkvæði um hvort halda skuli samningaviðræðum áfram.
Í fyrsta lagi er ekkert um það að ræða. Það þarf að sækja þá um aftur. Það þarf að sækja um aðild að Evrópusambandinu því það er búið að slíta viðræðunum.“
Segist Sigmundur sjálfur hafa á sínum tíma gengið úr skugga um að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki og segir að hægt sé að fletta því upp á vefsíðu Evrópusambandsins hvaða ríki teljist vera umsóknarríki.
Segir hann Ísland þar hvergi vera á blaði sem umsóknarríki og þurfi því að sækja aftur um aðild vilji menn ganga í Evrópusambandið.
„Ég ímynda mér að það standi til að nota hefðbundna pólitíska brellu að plata menn svona áfram í hverju skrefi, til dæmis með því að láta kjósa um hvort það eigi að klára viðræðurnar sem er bara fölsk spurning. Það er ekki neitt til að klára. Það þarf að byrja ef menn ætla að sækja um aðild að Evrópusambandinu,“ segir Sigmundur og heldur áfram:
„Og hitt er, sem að mínu mati er stærsta pólitíska fölsun, ég myndi jafnvel segja lygi, 21. aldarinnar, sem er það að þetta fari fram sem samningaviðræður við Evrópusambandið um aðild.“
„Evrópusambandið sjálft og fulltrúar þess reyndu mikið að útskýra fyrir Íslendingum og öðrum á sínum tíma að það væri ekkert sem héti að semja um aðild. Viðræðurnar gengu eingöngu út á með hvaða hætti umsóknarríkið ætlaði að uppfylla kröfur Evrópusambandsins.“
Segir Sigmundur að Evrópusambandið sjálft hafi verið ófeimið við að koma þeim atriðum á framfæri og taldi það mikilvægt að menn áttuðu sig á því.
„En hér er enn þá talað eins og þetta sé samruni Íslands og Evrópusambandsins sem er bara algjörlega fráleitt. Þannig að þetta er kynnt á fölskum forsendum að mínu mati.“
Sigmundur óskar þó þeim Kristrúnu Frostadóttur, Ingu Sæland og Þorgerði Katrínu til hamingju með að hafa myndað ríkisstjórn og óskar þeim góðs gengis í öllum góðum málum.
Það er þó hans mat að stjórnarsáttmálinn beri þess merki að vera ekki fullkláraður.
„Það er eins og aðalatriðið hafi verið að klára þetta fyrir ákveðinn tíma, allavega fyrir áramót og helst fyrir jól. Kannski spiluðu sólstöður eitthvað inn í þetta, að geta kynnt þetta á þeim degi.“
Hann segir margt í stjórnarsáttmálanum, og þá sérstaklega stærri atriðin, fela í sér engar útskýringar á hvernig ríkisstjórnin ætli sér að ná markmiðum sínum sem hann telur þó mörg hver vera ágæt og telur þá einnig að flestir geti tekið undir meirihluta sáttmálans.
„En pólitíkin snýst ekkert síður um hvernig menn framkvæma hlutina heldur en markmiðin. Þar vantar töluvert upp á. Það er lýst þarna ásetningi um að ná ákveðnum markmiðum en útfærsluna vantar í stórum málum eins og skattamálum og sjávarútvegsmálum.“