Staða Helga ekki háð „duttlungum Sigríðar“

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari og Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. Myndin …
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari og Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. Myndin var tekin þegar Alþingi ákærði Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra fyrir Landsdómi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir stöðu sína bundna lögum en ekki háða duttlungum Sigríðar J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara. Henni beri að una ákvörðun ráðherra og að hún hafi ekkert með það að segja hver sé staðgengill hennar. 

Þetta kemur fram í færslu Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara á Facebook.

„Ég er hvorki ráðinn né skipaður af ríkissaksóknara heldur ráðherra og er staða mín bundin í lögum en ekki háð duttlungum Sigríðar J. Friðjónsdóttur. Henni ber að una ákvörðun ráðherra sem er endanleg og byggir á lögbundinni valdheimild ráðherra.“

Fyrr í dag birtist tilkynning á vef ríkissaksóknara þar sem fram kom að Helga Magnús skorti almennt hæfi til að gegna embætti vararíkissaksóknara. Af þeim sökum telji Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari að hún geti ekki úthlutað verkefnum til hans.

Rík­is­sak­sókn­ari hafði áður óskað eft­ir því að dóms­málaráðherra myndi leysa Helga Magnús tíma­bundið frá störf­um en Guðrún Haf­steins­dótt­ir, þáver­andi dóms­málaráðherra, hafnaði beiðninni.

Efast um vald Sigríðar til að hundsa niðurstöðu ráðherra

Í færslu Helga kemur fram að hann furði sig á ákvörðun Sigríðar að hafna kröfu dómsmálaráðherra.

„Það er ekkert nýtt í þessu máli. Ráðherra er sá sem fer með vald til að skipa í stöðu mína og leysa mig frá henni.“

Þá ritar hann enn frekar:

„Nú hefur Sigríður ákveðið að hundsa niðurstöðu ráðherra og sóa almannafé með því að koma í veg fyrir að ég geti gegnt stöðu þeirri sem ég er skipaður til og unnið fyrir launum mínum. Ég efast stórlega um að hún hafi vald til þessa. Ef það hefur hvarflað að Sigríði að nýr dómsmálaráðherra muni fella ákvörðun Guðrúnar Hafsteinsdóttur úr gildi þá stenst slíkt ekki lög. Ákvörðun ráðherra um að hafna erindi Sigríðar er endanleg.“

Í lok færslunnar kemur fram að hann telji það rangt sem Sigríður gefi í skyn í tilkynningu sinni að hún feli honum störf sem staðgengli hennar.

„Um stöðu vararíkissaksóknara er fjallað í lögum og hefur ríkissaksóknari ekkert um það að segja hver er staðgengill hennar, það er vararíkissaksóknari. Ég hef gegnt stöðu vararíkissaksóknara í 13 ára eða jafn lengi og Sigríður sinni stöðu.“

Færslu Helga í heild sinni má lesa hér:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert