TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, kom til landsins í upphafi mánaðarins og hefur að undanförnu annast eftirlit í efnahagslögsögu Íslands ásamt því að sinna æfinga- og þjálfunarflugi.
Árið 2025 er áætlað að flugvélin verði í tvo mánuði í verkefnum fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópu. Hina 10 mánuðina verður vélin á Íslandi og verður það lengri viðvera hér en nokkur undanfarin ár.
Eins og fram hefur komið í fréttum fór TF-SIF síðasta vor í umfangsmikla skoðun sem lengdist verulega vegna þeirra viðgerða sem nauðsynlegt var að ráðast í á hreyflum flugvélarinnar. Viðgerð vegna hreyflanna lauk í nóvember.
Vegna þessa voru flugtímar vélarinnar umtalsvert færri en gert var ráð fyrir í upphafi ársins, upplýsir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
Alls hafði vélin flogið í 160 tíma og 30 mínútur á árinu 2024 þegar fjöldinn var tekinn saman í vikunni. Þar af eru rúmir 48 flugtímar við Íslandsstrendur og rúmir 112 flugtímar í verkefnum á vegum Frontex.
Landhelgisgæslan gerir ráð fyrir að þrjátíu flugstundir bætist við eftirlitsstundir vélarinnar hér við land áður en árinu lýkur.
Ásgeir segir að gert sé ráð fyrir að endanlegur kostnaður vegna viðgerða á hreyflunum verði í kringum 280 milljónir króna.
Áætlað tekjutap vegna þeirra verkefna sem Landhelgisgæslan varð af á árinu 2024 vegna bilunarinnar er um 110 milljónir. Samtals eru þetta 390 milljónir.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í gær, laugardag.