„Það er af nógu að taka“

Alma Möller fékk lyklana að heilbrigðisráðuneytinu í dag.
Alma Möller fékk lyklana að heilbrigðisráðuneytinu í dag. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Alma Möller heilbrigðisráðherra er full tilhlökkunar til að takast á við sitt nýja starf sem mun hefjast að fullu þann 27. desember. Þá nefnir hún að þó að öldrunarmál hafi færst úr heilbrigðisráðuneytinu yfir í félags- og húsnæðismálaráðuneytið muni hún koma að þeim málefnum úr annarri átt.

Alma fékk afhenta lyklana að heilbrigðisráðuneytinu fyrr í dag.

„Mér líður bara mjög vel. Ég er full tilhlökkunar að takast á við þetta krefjandi starf. Ég held að ég sé ágætlega undirbúin miðað við mína menntun og fyrri störf en ég veit líka að það er mjög margt sem ég þarf að læra þannig ég tekst á við starfið með auðmýkt,“ segir Alma í samtali við mbl.is.

Mun koma að öldrunarmálum úr annarri átt

Aðspurð segir hún að mikilvægt sé að sameina þjónustu við aldraða á einum stað og hafi því verið ákveðið að færa öldrunarmál yfir til félags- og húsnæðismálaráðuneytisins.

„En það verður skipuð sérstök ráðherranefnd um málefni öldrunar þannig ég mun koma að þeim úr þeirri átt og auðvitað þurfum við öll að hjálpast að því þetta er gríðarlega mikilvægur málaflokkur.“

Nefnir Alma að á meðal brýnustu mála varðandi öldrunarmálin séu bygging hjúkrunarheimila en segir hún að á fimmta hundrað manns bíði eftir plássi.

Samhliða því þurfi að styrkja þjónustu sem geri öldruðum kleift að búa sjálfstætt eins lengi og hægt er.

„Þar erum við að tala um heimaþjónustu og dagþjónustu og heilsueflingu. Þannig að ég reikna með að sinna kannski einhverju af þessu eins og heilsueflingu.“

Fer yfir málin með ráðuneytisstjóra

Um hennar fyrstu skref segir Alma að þau verði að fara yfir mál heilbrigðisráðuneytisins með ráðuneytisstjóra og starfsfólki og sjá að hvaða góðu málum þau séu að vinna.

„En síðan eru auðvitað áherslumál ríkisstjórnarinnar, við erum búin að nefna öldunarmálin, málefni barna og ungmenna og geðheilbrigðismál og mál fíknisjúkdóma. Þannig að það er af nógu að taka.“

Klárar laufabrauðabaksturinn á eftir

Stutt er til jóla en Alma segist ekki mikið hafa náð að komast í jólaundirbúning síðustu vikur.

„Ég auðvitað kom út úr kosningabaráttunni og fór beint í það að ganga frá mínu fyrra starfi hjá Embætti landlæknis og ég gekk þaðan út á mánudegi ef ég man rétt og það leið klukkutími þangað til ég var kölluð inn í málefnavinnu.

En svo fékk ég þarna eina helgi og ég er ágætlega stödd með jólaundirbúning og sérstaklega á eftir þegar ég verð búinn með laufabrauðið.“

Hún segist ekki viss um að hún muni eyða miklum tíma í ráðuneytinu á morgun þar sem boðað hefur verið til ríkisstjórnarfundar.

„Svo kemur auðvitað aðfangadagur, en ég er búin að fara yfir mál með ráðuneytisstjóra og við reiknum með að setjast hér öll saman 27. desember og þá svona hefst vinnan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert