„Þetta er bók sem einfalt verður að fara með í ferðalagið, flugferðina, sumarbústaðinn, útileguna eða partíið,“ segir Garðar Örn Hinriksson, höfundur Spurningahandbókarinnar, sem hefur að geyma 1.200 fjölbreyttar spurningar.
Bókin er klár frá hendi höfundar en hann freistar þess nú að fjármagna útgáfuna gegnum Karolinafund og hefur út janúar til að ná settu marki, 3.000 evrum. Bókin yrði svo afhent í febrúar.
„Spurningaspil eru almennt kjánalega dýr á Íslandi, oft á bilinu 8-12 þúsund krónur, og ég fékk þá hugmynd fyrir um ári að leita leiða til að gera þetta ódýrara fyrir áhugafólk um spurningaleiki og gera fleirum kleift að eignast svona spil. Þess vegna fer ég þá leið að gefa út bók en ekki spil og gangi allt að óskum ætti hún að kosta undir fjögur þúsund krónum út úr búð. Ég heyri á fólki að því þykir þetta sniðug hugmynd,“ segir hann.
– Ert þú forfallið spurninganörd?
„Ég hef lengi haft brennandi áhuga á spurningaleikjum og það er sá áhugi sem knýr mig áfram í þessari útgáfu. Í meira en tíu ár hef ég staðið fyrir alls konar spurningakeppnum og vilji fólk fá mig í partíið er það ekkert mál,“ segir hann léttur. „Það er ekkert partí án spurninga.“
Þetta byrjaði í kringum fjölskyldu Garðars Arnar en hefur undið upp á sig. „Ég hef hannað töluvert af spilum á þessum tíma, án þess að gefa þau út, en núna fannst mér tími til kominn að láta verða af því.“
Hægt er að tryggja sér eintak af Spurningahandbókinni á slóðinni: karolinafund. com/project/ view/6366.
Nánar er rætt við Garðar Örn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.