Nýjar og endurbættar kirkjutröppur að Akureyrarkirkju voru vígðar síðdegis í dag. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri klippti á borða og Barnakór Akureyrarkirkju söng nokkur lög. Síðan var skrúðganga upp tröppurnar með skátana fremsta í flokki.
„Kirkjutröppurnar eru stór hluti af bæjarmynd Akureyrar og Akureyrarkirkja eitt helsta kennileiti bæjarins. Akureyrarbær þakkar bæjarbúum biðlundina og skilninginn sem þeir hafa sýnt meðan unnið hefur verið að endurbótum á kirkjutröppunum, þrátt fyrir ófyrirséðar hindranir sem tafið hafa verkið frá upphaflegri áætlun,“ segir á vef Akureyrarbæjar, en eins og kom fram í Morgunblaðinu sl. laugardag í pistli Margrétar Þóru Þórsdóttur, fréttaritara blaðsins á Akureyri, þá hafa miklar tafir orðið á framkvæmdinni.
Hafist var handa við að rífa niður gömlu tröppurnar í júní á síðasta ári. Drógust endurbæturnar á langinn en nú geta bæjarbúar og ferðamenn gengið eða hlaupið upp og niður tröppurnar.