„Á allt sitt undir því að njóta trausts almennings“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra á leið á ríkisstjórnarfund í morgun.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra á leið á ríkisstjórnarfund í morgun. mbl.is/Karítas

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, nýskipaður dómsmálaráðherra, segir að stóra markmiðið hjá sér sé að ákæruvaldið verði starfhæft en fram kom í tilkynningu á vef ríkissaksóknara í gær að Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara skorti almennt hæfi til að gegna embætti vararíkissaksóknara.

„Ákæruvaldið á allt sitt undir því að njóta trausts almennings og varðveita sinn trúverðugleika. Þetta ástand sem þarna hefur teiknast upp er auðvitað ekki gott,“ sagði Þorbjörg við mbl.is eftir fyrsta fund nýrrar ríkisstjórnar í morgun.

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segist ekki geta úthlutað verkefnum til Helga Magnúsar en hún hafði áður óskað eftir því að dómsmálaráðherra myndi leysa Helga Magnús tímabundið frá störfum en Guðrún Hafsteinsdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, hafnaði beiðninni.

Ástandið er ekki gott

Þorbjörg, sem starfaði sem saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara árin 2018 til 2020, segist vera búin að óska eftir gögnum og er að setja sig inn í málið.

„Ég mun skoða allar hliðar þess en ástandið er ekki gott og ég held að það blasi við af umfjöllun fjölmiðla. Ég veit í sjálfu sér ekki mikið meira en það sem hefur komið fram í fjölmiðlum en er búin að óska eftir því innan úr ráðuneytinu að fá öll þau gögn sem máli skipta,“ segir hún.

Spurð hvort hún sé hæf til að úrskurða í einhverju svona máli sem fyrrverandi saksóknari segir hún:

„Ég starfa með öllu því fólki sem þarna vinnur og ég mun skoða allar hliðar málsins. Núna er ég á degi eitt í því ferli,“ segir Þorbjörg.

Þorbjörg segir að jólandi hafi verið yfir vötnum á fyrsta fundi ríkisstjórnarinnar.

„Þetta var í fyrsta sinn sem við setjumst niður saman og við erum mörg sem erum í fyrsta sinn í ríkisstjórn. Þessi fundur var því einhvers konar slípun á hópnum og hvernig við ætlum að tala saman, hvernig langar okkur til að vinna og hvernig náum við fram því markmiði að verða verkstjórn sem er samstíga og gengur í takti,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert