Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nýr utanríkisráðherra, fundaði strax í gær, eftir að hafa tekið við lyklum ráðuneytisins frá forvera sínum, með nokkrum starfsmönnum ráðuneytisins. Var markmiðið að koma strax vinnu við ákveðin mál af stað.
Þetta sagði Þorgerður eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Eftir hann fundaði hún áfram með þeim Kristrúnu Frostadóttur og Ingu Sæland, leiðtogum hinna stjórnarflokkanna.
„Við vorum að fara yfir málin, þessi praktísku mál sem ráðherrar í nýrri ríkisstjórn þurfa að fara yfir. Það var m.a. verið að fara yfir starfsreglurnar,“ sagði Þorgerður spurð um hvað hafi verið rætt á ríkisstjórnarfundinum. Bætir hún við að einnig hafi verið rætt um stefnuyfirlýsinguna og fleiri mál sem framundan séu.
Samkvæmt tilkynningu frá stjórnarráðinu eftir fundinn var einnig rætt um siðareglu ráðherra, þingmálaskrá, öryggismál æðstu stjórnar ríkisins og staðgengla forsætisráðherra, en full dagskrá fundarins er hér að neðan:
Fundurinn dróst nokkuð og var lengri en áætlað hafði verið. Þorgerður segir slíkt ekkert óeðlilegt þegar um fyrsta fund ríkisstjórnar sé að ræða. „Það er ákveðin eftirvænting og spenna að setjast niður og ræða málin,“ segir hún.
Þorgerður sagði jafnframt að rætt hafi verið um þær aðgerðir sem ætti að fara í strax í upphafi árs. Spurð nánar um hvaða aðgerðir það séu sagði Þorgerður að hún undirstrikaði hvaða máli það skipti að vinna að hagræðingu í ríkiskerfinu og að ýta úr vör verkefnum sem ýta undir efnahagslegan stöðugleika og ábyrg ríkisfjármál. Þá hafi verið rætt um hvaða fyrirkomulag þau ætli að hafa við að ná utan um vanda barna og ungmenna, um samgöngu- og innviðamál og fleiri mál.
„Það var mikill einhugur og vænting á þessum fundi,“ bætti hún við.
Spurð um það af hverju lyklaskiptin hafi verið á sunnudegi en ekki í dag segir Þorgerður að þau hafi viljað hefjast handa strax og hægt var. „Bara að byrja að vinna,“ segir hún. Í kjölfar lyklaskiptanna segir Þorgerður að hún hafi fundað með ráðuneytisstjóra, starfsfólki á skrifstofu ráðherra, prótókolstjóra o.fl. í um fjórar klukkustundir til að fara yfir málefni og verkefni framundan. „Við erum strax byrjuð að vinna og setja mál í farveg.“
Þá segir hún að í næstu viku muni hún funda með skrifstofustjórum.
Hún tekur fram að hún hafi rætt við ráðuneytisstjóra um þau málefni sem ríkisstjórnin væri að leggja áherslu á. „Það kemur engum á óvart að ég er að ýta undir vinnuna strax við öryggis- og varnarstefnuna.“
Beint í kjölfar ríkisstjórnarfundarins og viðtala sem veitt voru fjölmiðlum héldu valkyrjurnar svokölluðu til fundar, en Þorgerður segir að þar sé meðal annars byggt á þeim samskiptum sem þær hafi átt síðustu vikurnar og vináttu sem hafi þróast. Þær ætli sér að koma vinnu við fjölmörg mál strax í gang. „Þetta verður verkstjórn út allt kjörtímabilið.“