Furðulega margir heppnir síðustu vikurnar

Einn vann tæpar 10 milljónir um helgina.
Einn vann tæpar 10 milljónir um helgina. mbl.is/Karítas

Heppnin hefur verið með óvenju mörgum Íslendingum síðustu vikurnar, að sögn Íslenskrar getspár. Alls hafa sex manns verið með fyrsta vinning í Lottó síðan 30. nóvember.

Í tilkynningu frá Íslenskri getspá segir að karlmaður hafi einn verið með allar tölur réttar í Lottó um síðustu helgi, sem tryggði honum rétt tæpar 10 milljónir.

„Vinningshafinn var auðvitað himinlifandi en þó hógværðin ein þegar hann gaf sig fram á skrifstofu Íslenskrar getspár í dag og sagðist mögulega endurnýja bílinn á nýju ári, annað væri þó alveg óráðið en vinningurinn væri að sjálfsögðu mjög svo kærkomin sérstaklega svona síðustu helgi fyrir jól,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir enn fremur óvenju margir hafi orðið milljónamæringar af Lottó síðustu vikurnar fyrir jól. Alls hafi sex manns verið með fyrsta vinning síðan 30. nóvember. Svo muni að lágmarki 28 milljónamæringar bætast við laugardaginn 28. desember þegar dregið verður í Milljónaleiknum svokallaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert