Gul viðvörun í gildi: Suðaustan stormur

Vindaspáin á landinu klukkan 7 í dag.
Vindaspáin á landinu klukkan 7 í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun er í gildi á Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og á miðhálendinu. Á Faxaflóa og Breiðafirði er hún í gildi til klukkan 7, á Vestfjörðum til klukkan 8, á Ströndum og Norðurlandi vestra til klukkan 10 og á miðhálendinu til hádegis.

Á flestum stöðum eru suðaustan 15 til 23 metrar á sekúndu með vindhviðum 35 til 45 m/s við fjöll. Það verður slydda, snjókoma eða skafrenningur og mjög lítið skyggni, einkum á fjallavegum, og er varasamt ferðaveður.

Slydda eða snjókoma

Veðurspáin á landinu er á þann veg að spáð er suðaustan stormi með slyddu eða snjókomu. Snýst í suðvestan 10-18 m/s fyrripartinn í dag með skúrum, fyrst á suðvesturhorninu. Hiti verður á bilinu 2 til 7 stig.

Það hvessir síðdegis, suðvestan 13-23 m/s verða undir kvöld, hvassast verður á Norðurlandi og Vestfjörðum. Slydduél eða él verða á vesturhelmingi landsins og kólnandi veður.

Sunnan 8-15 m/s verða á morgun og slydda eða snjókoma, en þurrt á norðaustanverðu landinu. Hiti verður í kringum frostmark. Hvessir síðdegis, suðvestan 15-25 m/s annað kvöld, hvassast verður suðvestan til á landinu. Víða verða dimm él, en áfram þurrt norðaustanlands. Kólnandi veður.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert