Máttu ekki auglýsa „mesta úrvalið“ og „besta verðið“

Neytendastofa hefur bannað Travelshift að auglýsa bestu verðin og mesta …
Neytendastofa hefur bannað Travelshift að auglýsa bestu verðin og mesta úrvalið. Ljósmynd/Colourbox

Neytendastofa hefur lagt 700 þúsund króna stjórnvaldssekt á ferðaþjónustufyrirtækið Travelshift ehf, rekstraraðila Guide to Europe, fyrir hafa brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með fullyrðingum í auglýsingum sínum sem ekki hafi verið sannaðar. Meðal annars um að félagið bjóði upp á „mesta úrvalið“ og „ódýrustu verðin“.

Ákvörðunin var birt á vef Neytendastofu í dag.

„Neytendastofa telur brot Travelshift umfangsmikið og alvarlegt gagnvart heildarhagsmunum neytenda auk þess sem það beinist að mjög breiðum hópi neytenda. Þá er um að ræða viðskiptahætti sem stríða gegn góðum viðskiptaháttum og eru líklegir til að hafa áhrif á ákvörðun neytenda um að eiga viðskipti og taka fjárhagslega ákvörðun sem þeir hefðu annars ekki tekið,“ segir meðal annars um ákvörðunina.

Þá beinir stofnunin þeim tilmælum sínum til Travelshift að haga skilmálum sínum um pakkaferðir þannig að þeir séu í samræmi við þau lög sem gilda um starfsemi félagsins. Orðalag í framsetningu skilmála hafi verið óskýrt og ítrekað vísað í aðra hliðarskilmála.

Ósannar og villandi fullyrðingar

Í svörum Travelshift kom m.a. fram að ferðir sem félagið bjóði séu bestar m.t.t. umsagnareinkunna á netinu og út frá þörfum og óskum viðskiptavinarins sem geti valið úr yfirgripsmiklu vöruúrvali og þannig búið til sína bestu ferð. Guide to Europe hafi stærsta markaðstorg á internetinu þegar komi að ferðum til Evrópu og sé í langflestum tilvikum ódýrasta ferðaskrifstofan samkvæmt úttekt sem félagið lét gera. Tilgreind „verð frá“ séu ávallt aðgengileg neytendum.

Neytendastofa segir hins vegar að félagið hafi í auglýsingum sínum sett fram með afdráttarlausum hætti fullyrðingar um að það bjóði upp á bestu ferðir, bestu hótel, flug, gististaði og skoðunarferðir án þess að fram kæmi að það byggði á umsagnareinkunnum. Fullyrðingarnar væru því ósannaðar og villandi.

Þá taldi stofnunin að framsetning verðs á yfirlitssíðum og leitarsíðum Guide to Europe veitti neytendum villandi upplýsingar um verð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert