Mikil eftirspurn eftir jólatrjám

Jólatrjáasala hefur gengið vel á Höfuðborgarsvæðinu.
Jólatrjáasala hefur gengið vel á Höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Óttar Geirsson

Sala á jólatrjám hef­ur gengið vel á höfuðborg­ar­svæðinu sam­kvæmt þeim söluaðilum sem mbl.is náði tali af.

Sammælst er um að nordmannsþinur, innfluttur frá Danmörku, sé vinsælastur en hann er víða uppseldur.

Í jólatrjáasölu flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík er nordmannsþinur uppseldur en einhverjar furur eru eftir á sölustað þeirra í Byko í Kópavogi.

Nordmannsþinur er samkvæmt starfsmanni garðyrkjudeildar Garðheima alltaf vinsælastur hjá þeim. Þau eigi undir 20 stykki eftir af honum í stærðinni 70-100 cm.

Miklar fyrirspurnir

Jólatrjáasala Björgunarsveitar Hafnarfjarðar sem og Blómaval hafa orð á því í samtali við mbl að eftirspurn hafi verið mikil í dag.

Björgunarsveit Hafnarfjarðar hafði fengið mikið magn viðskiptavina til sín í dag og höfðu þeir farið á milli staða leitandi að jólatrjám en komið að tómum kofanum.

Sala sveitarinnar hefur gengið prýðilega í ár en þau selja bara nordmannsþin. Þau eigi enn eitthvað til af stærðinni 150-200 cm.

Samkvæmt starfsmanni Blómavals eru öll tré að klárast hjá þeim. Þau eigi eitthvað eftir af stafafuru í lítilli stærð. Þau hafi einnig fengið mikið af fyrirspurnum í dag og telur starfsmaður því líklegt að fólk sé að lenda í örlitlu veseni með að finna tré daginn fyrir aðfangadag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert