„Þetta er mín hugleiðsla,“ segir Eygló Jóhannesdóttir á Akureyri, sem á liðnu ári hóf að mála jólakúlur. „Þetta handverk færir mér ró og frið, er mjög gefandi og nærandi fyrir sálina.“
Eygló flutti til Akureyrar á síðastliðnu ári, en hún og eiginmaðurinn Jósavin H. Arason voru áður bændur á Arnarnesi í Hörgársveit. Meiri tími og næði gefst til að sinna tómstundum eftir að annasömu ævistarfi í sveitinni er lokið. Vinnustofa er á neðri hæð húss þeirra, þar sem þau hafa hreiðrað um sig og sinna sínu; hann er smiður og stendur við rennibekkinn og framleiðir jólatré.
Eygló hefur alla tíð haft áhuga fyrir því að mála og lærði myndlist hjá Erni Inga, var þar í fjögurra ára námi sem hún segist hafa nýst sér einkar vel. „Svo hef ég verið að sækja alls konar námskeið um tíðina, hjá Myndlistarskólanum á Akureyri, Símey og víðar, og haft gagn og gaman af. Ég fann alltaf áhugaverð námskeið til að sækja og bæta við. Síðan málaði ég og málaði og fyllti alla veggi af myndum,“ segir hún.
Eygló hefur iðulega skreytt jólapakka til barna sinna og barnabarna með mynd eftir sig en einhverju sinni í fyrrahaust var hún að gera mandölu, endurtekinn hring eftir hring, og datt þá í hug að þetta gæti verið upplagt til að nota á jólakúlu. „Ég prófaði mig áfram og þetta kom bara ljómandi skemmtilega út,“ segir hún. Er hver og ein kúla einstök, engar tvær eins.
„Þetta er svo skemmtilegt að fást við að ég sat talsvert við þetta og átti orðið nokkurt magn og datt þá í hug að bjóða kúlurnar til sölu,“ segir hún. „Fólk er aðeins farið að koma og skoða, en ég er nýlega byrjuð á þessu og má segja að sala fari hægt en örugglega af stað.“
Nánar er rætt við Eygló í Morgunblaðinu í dag.