Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hverfi 109 í Breiðholti og endaði inni í garði. Miklar skemmdir urðu á bifreiðinni en ökumaðurinn slapp óskaddaður en hið sama er ekki hægt að segja um tré í garðinum sem hann ók á.
Einstaklingur var handtekinn í hverfi 221 í Hafnarfirði grunaður um vopnalagabrot og brot á lögreglusamþykkt. Hann var fluttur á lögreglustöð til frekari viðræðna og látinn laus að lokinni skýrslutöku.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Alls eru 52 mál skráð í kerfi lögreglunnar á þessu tímabili. Lögreglan hvetur ökumenn til að fara varlega í umferðinni vegna erfiðra akstursskilyrða.
Tilkynnt var um líkamsárásir í Grafarholti og í hverfi 111 í Breiðholti.
Lögreglunni barst einnig tilkynning um lausan hest á akbraut í Grafarholti. Lögreglumenn tryggðu dýrið og komu því fyrir í gerði.
Í Árbænum var tilkynnt um þjófnað og eignaspjöll og er málið í rannsókn.
Tveir voru fluttir á slysadeild eftir umferðarslys í hverfi 104. Einhverjar skemmdir urðu á bifreiðunum.
Tilkynnt var um innbrot í verslun í hverfi 105. Málið er í rannsókn.
Upp komst um þjófnað í stórmarkaði í hverfi 201 í Kópavogi. Málið var afgreitt á vettvangi.
Tilkynnt var um eignaspjöll og húsbrot í húsnæði í hverfi 109 í Breiðholti. Tveir voru handteknir á vettvangi. Þeir voru fluttir á lögreglustöð og var málið afgreitt, m.a. með aðkomu forráðamanns.