Slagveður gekk yfir sunnan- og vestanvert landið í nótt og eldsnemma í morgun með roki, slyddu og rigningu en veðrið hefur að mestu gengið niður þegar liðið hefur á morguninn.
Veðurfræðingur segir að veðrið verði skárra á suðurhelmingi landsins í dag en það hvessi fyrir norðan seinni partinn og þar verður víða mjög hvasst í kvöld. Útlit er fyrir að veðri versni á vestanverðu landinu um það leyti sem jólin ganga í garð.
Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að framan af degi á morgun, aðfangadag, verði veðrið þokkalegt en þegar jólahátíðin gangi í garð megi búast við hvössum éljagangi og leiðindaveðri á sunnan- og vestanverðu landinu. Hann segir að svipað verði uppi á teningnum á jóladag.
„Það má búast við miklum éljahryðjum undir kvöld á morgun og þegar élin ganga yfir verður mjög hvasst og blint og nánast aftakaveður. Það er útlit fyrir svipað verður á jóladag og svo fólk ætti að fara varlega í þessum aðstæðum. Það verður ekkert gaman að vera úti á vegum í svona veðri og við hvetjum fólk til að fylgjast vel með veðuspá og færð,“ segir Birgir Örn við mbl.is.
Hann segir að éljagangurinn muni ná inn á Norðvesturland en á norðausturhelmingi landsins ætti að verða lítil ofankoma á morgun og á jóladag.