Nokkur útköll hjá Landsbjörg

Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sinntu nokkrum útköllum vegna veðursins í nótt.
Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sinntu nokkrum útköllum vegna veðursins í nótt. mbl.is/Óttar

Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar þurftu að sinna nokkrum verkefnum í nótt vegna veðurs en slagveður gekk yfir sunnan- og vestanvert landið í nótt og fram undir morgun.

Að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, kom fyrsta útkallið klukkan hálf þrjú í nótt í Snæfellsbæ. Óskað var eftir aðstoð Björgunarsveitarinnar Lífsbjargar í Snæfellsbæ en fólk lenti í vandræðum við Ólafsvík. Hann segir að björgunarsveitin hafi farið á einum bíl til að sækja fólkið sem varð að skilja bíl sinn eftir þar sem ekki var hægt að aka honum.

Í Svínahrauni var óskað eftir aðstoð þar sem bíll var fastur í snjó en vegfarendum sem áttu leið um tókst að losa bílinn og var aðstoð björgunarsveitar afturkölluð. Þá voru tveir hraktir í bíl á Þingvallavegi við Leirvogsvatn í vandræðum en björgunarsveit sem kom á staðinn tókst að losa bílinn úr snjó.

Í Vogum var óskað eftir aðstoð þar sem þakkantur var að losna af húsi og sama var uppi á teningnum í Grundarfirði. Á Akranesi losnuðu þakplötur og stillansar við byggingu í bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert