Ríkisstjórnin ekki beint á leiðinni í jólafrí

Fyrsti fundur ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur stóð yfir í tvo og …
Fyrsti fundur ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur stóð yfir í tvo og hálfan tíma. mbl.is/Karítas

Ný ríkisstjórn sat sinn fyrsta ríkisstjórnarfund í dag en næsti fundur verður haldinn á nýju ári, nánar til tekið föstudaginn 3. janúar. Það verður samt nóg að gera hjá stjórnarliðum milli jóla og nýárs að sögn forsætisráðherra.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að talsverðum tíma fundarins hafi verið varið í að fara yfir stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar en alls voru níu mál á dagskrá fundarins samkvæmt upplýsingum frá Stjórnarráðinu.

Ríkisstjórnin og stefnuyfirlýsing hennar voru formlega kynnt á laugardag en í gær, sunnudag, voru lyklaskipti gerð milli fráfarandi ráðherra og nýrra.

Lyklaskiptin voru á sunnudegi og það þurfti því sennilega að ræsa einhverja ráðuneytisstarfsmenn út. Hvers vegna biðuð þið ekki bara með þetta?

„Það var bara áhugi meðal ríkisstjórnarmeðlima að ganga strax í verkin,“ svarar Kristrún í samtali við mbl.is að fundi loknum. Hún segir að stjórnin hafi viljað nýta daginn sem fullan vinnudag og ná þannig einum fundi fyrir jól.

„Við berum auðvitað virðingu fyrir því að stjórnkerfið þarf líka á smá hvíld að halda, það þurfa margir á hvíld að halda núna rétt fyrir rauðu dagana, en við vildum endilega ná saman áður en við leggjum hausinn aðeins til hliðar og það var forgangsatriði hjá okkur að ná saman.“

Ráðherraskóli milli jóla og nýárs

Ráðherrarnir eru samt ekki að henda sér beint í jólafrí eftir einn dag í embætti, af svörum Kristrúnar að dæma.

„Það verður unnið milli jóla og nýárs,“ segir hún.

„Ráðherrar munu líka sækja ákveðinn ráðherraskóla, ef svo má segja. Það verður fundur með fólki innan úr stjórnkerfinu þar sem verður farið yfir ákveðin efni sem snerta ráðuneytin og það verður langur fundur á mánudaginn næstkomandi. Fólk er síðan að funda í sínum ráðuneytum, þannig að það er nóg að gera en kannski ekki ástæða til að hittast strax á föstudaginn, vegna þessa næst.“

„Ekki háar upphæðir“ sem skipta samt máli

Kristrún segir að fyrsti fundurinn hafi verið góður og að talsverðum tíma hafi verið varið í að fara yfir stefnuyfirlýsinguna sem kynnt var á laugardag.

„Við höfum átt í mjög nánum samskiptum undanfarnar þrjár vikur. Það skiptir líka máli að hleypa fagráðunum inn í það samtal, vegna þess að það er ekki allt skrifað á blað, það er annað sem hefur verið útfært í samtölum.“

Ráðherra segir að ríkisstjórnin hafi einnig hafist handa við að forgangsraða verkefnum sem hún hyggst hrinda í framkvæmd á næstu 100 dögum. Ríkisstjórnin muni setja ákveðin mál á strax á oddinn, þar fyrst nefnir Kristrún að veita meðferðaúrræðum í landinu frekari fjárframlög.

„Þetta er ekki háar upphæðir í stórasamhenginu, en eitthvað sem skiptir alveg gríðarlega miklu máli, og munum finna svigrúm til þess í útgjaldaramma ríkissjóðs. Það þarf kannski að fjármagna það með einhverjum öðrum hætti.

Auk þess ætli ríkisstjórnin að hefjast handa við breytingum í húsnæðismálum.

„[Við ætlum að] taka á skammtímaleigu, taka líka á því sem lengi hefur verið lofað um uppbyggingu einingarhúsnæðis, svo að það sé hægt að gera það á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt, síðan möguleikanum að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir,“ segir Kristrún.

„Það eru alls konar hugmyndir sem hafa komið fram, sem við munum leggja áherslu á og þetta mun bara koma í ljós innan skamms.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert