Búist við hvassviðri eða stormi í kvöld

Það verður hvasst í dag.
Það verður hvasst í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Búist er við suðvestan hvassviðri eða stormi með dimmum éljum á sunnan- og vestanverðu landinu í kvöld. Heldur hægari vindur verður á Norðaustur- og Austurlandi. Þá frystir um allt land. 

Appelsínugular viðvaranir taka gildi á sunnan- og vestanverðu landinu í kvöld. 

„Sunnan og suðvestan strekkings vindur í dag með snjó- eða slydduéljum, en þurrt að mestu um landið norðaustanvert. Síðdegis dýpkar lægð fyrir vestan land. Þá herðir á vindinum og í kvöld er búist við suðvestan hvassviðri eða storm með dimmum éljum á sunnan- og vestanverðu landinu. Heldur hægari vindur á Norðaustur- og Austurlandi og úrkomulítið. Frystir um allt land,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Á jólanótt og jóladag er útlit fyrir að óveðrið haldist áfram með litlum breytingum. Í framhaldinu gera spár ráð fyrir að veður fari heldur skánandi þó éljagangurinn verði líklega þrálátur sunnan- og vestanlands.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert