Búið er að loka Hellisheiði vegna veðurs.
Á vef Vegagerðarinnar segir að umferð sé beint um Þrengslin.
Þá segir að slæmt ferðaveður sé orðið á Sandskeiðunum og lítið skyggni.
Holtavörðuheiði er einnig lokuð og er hjáleið um Bröttubrekku og Laxárdalsheiði. Athugað verður með opnun í fyrramálið.
Það gengur í suðvestan storm með dimmum éljum á vestanverðu landinu í kvöld.
Segir í athugasemd veðurfræðings Vegagerðarinnar að blint sé í éljum og skafrenningi og akstursskilyrði erfið, þá einkum á fjallvegum, en óvissustig er á vegum víða um land.
Það dregur úr vindi síðdegis á morgun, en áfram verður ákveðin suðvestanátt með éljum og vetrarfærð.