Nú er aðfangadagur runninn upp og þó svo að margir Íslendingar hafi verið í óðaönn að undirbúa hátíðarnar síðustu vikur og daga þá þykir ekki ólíklegt að eitthvað hafi gleymst í óðagotinu sem getur fylgt því að skipuleggja jól.
Hér fyrir neðan má finna lista, sem er að vísu ekki tæmandi, yfir verslanir og ýmsa þjónustu sem hægt er að sækja í dag.
Stærstu verslunarmiðstöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu Kringlan og Smáralind opna dyr sínar fyrir viðskiptavinum klukkan 10 og loka klukkan 13.
Í verslunum Bónus verður opið milli klukkan 10 og 14. Flestar verslanir Krónunnar verða opnar frá 9 til 15. Nokkrar verslanir Krónunnar opna kl. 8. Verslanir Hagkaupa í Kringlunni og Smáralind verða opnar frá 9 til 14. Aðrar verslanir verða opnar til klukkan 16.
Í verslunum Iceland verður opið til klukkan 16. Flestar verslanir Nettó verða opnar til klukkan 14 en mismunandi er á milli verslana klukkan hvað þær opna.
Á aðfangadag er opið frá 10-13 í öllum verslunum ÁTVR á höfuðborgarsvæðinu. Opnunartími á landsbyggðinni er mismunandi milli verslana. Hér má nálgast frekari upplýsingar um opnunartíma þeirra.
Fyrir þá sem þurfa að fara í apótek verða verslanir Lyfju, Lyf og heilsu og Apótekarans opnar.
Opnunartími er mismunandi milli verslana. Lengsti opnunartíminn verður í verslunum Lyfju í Lágmúla og á Smáratorgi, en þar verður opið milli 8 og 17, og í verslun Apótekarans í Austurveri, þar verður opið milli 8 og 18.
Fyrir þá sem vilja skella sér til sunds á höfuðborgarsvæðinu þá verður opið í öllum sundlaugum Reykjavíkur, nema Klébergslaug, milli kl. 6.30 og 12. Klébergslaug opnar klukkan 9 og lokar 13.
Í Kópavogi verða Salalaug og Sundlaug Kópavogs opnar milli 8 og 12. Sundlaug Seltjarnarness verður opin milli klukkan 8 og 12.30
Í Garðabær, Ásgarði og á Álftanesi munu laugarnar opna kl. 6.30 og loka 11.30.
Sundhöll Hafnafjarðar verður opin á milli 6.30 og 11. Ásvallalaug og Suðurbæjarlaug verða með opið á milli 6.30 og 13.