Í þögn hjartans

Dómkirkjan í Reykjavík.
Dómkirkjan í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

mbl.is ósk­ar lands­mönn­um gleðilegra jóla og far­sæls kom­andi árs og þakk­ar um leið sam­fylgd­ina á ár­inu sem er að líða. 

Í til­efni hátíðar­inn­ar var Bolli Pétur Bollason, prest­ur í Ástjarnarkirkju, feng­inn til að skrifa jóla­hug­vekju sem lesa má hér að neðan.

Séra Bolli Pétur Bollason,
Séra Bolli Pétur Bollason, mbl.is/Eyþór

Um stund áður en klukkan slær 18:00 og kirkjuklukkurnar í Dómkirkjunni hringja inn jólin ríkir helgasta þögn ársins í útvarpi allra landsmanna. Það er í reynd mjög eftirtektarverður dagskrárliður, ef dagskrárlið skyldi kalla, í hljóðsamfélagi samtímans.

Þarna í þögninni er eitthvað merkilegt í loftinu, eitthvað stórt í vændum, það eru að koma jól. Þessi þögn er um margt umhugsunarverð. Ég veit um fjölskyldur sem missa ekki af henni, hún er orðin kær heimilissiður eins og svo margt annað er tengist aðventu og jólum. Við tækin er setið í virðingu og eftirvæntingu, hugsað og minnst, hjartað undirbúið að taka á móti friði jólanna, þögult andartak sem fylgir hverjum fjölskyldumeðlim inn í ljósanna hátíð.

Á þeirri stundu við jólaupphaf getur það verið ótalmargt sem fer í gegnum hugann, eða eins og einni jóladís varð að orði, þá kemur yfir þig einhver ólýsanlegur friður og þú nærð jafnvel utan um mörg þau bænarefni sem hjartað þitt vill halda til haga og bera fram fyrir höfund jólanna.

Í öllu ölduróti kann hin hljóða stund jafnframt að leiða hugann okkar á kyrrláta staði sem eru okkur kærir, við getum séð fyrir okkur grænkandi grundir í þekkri sveit að vori með kindur á beit eins og fjárhirðar eða stjörnubjartan kvöldhimin aðventunnar eins og vitringar hvar þú horfir upp og veltir fyrir þér hvort skærasta stjarnan vísi þér veginn áfram og hinar stjörnurnar varðveiti á meðan sálir þeirra sem á undan þér eruð gengin og þú hefðir viljað hafa hjá þér á þeirri dýrmætu fjölskylduhátíð sem jólin að sönnu eru. Blessun fylgi minningu þeirra allra.

Það er víst gott að horfa til himins, þú réttir ekki aðeins úr þér, á sama tíma og þú finnur fyrir smæð þinni gagnvart óravíddum himingeimsins, verður sú tilfinning ásækin að þú gangir ekki ein/n. Það eru einmitt jólin sem minna okkur á það og þess vegna viljum við ekki af neinum vita í einsemd eða einangrun á jólunum.

Það er á þessari hátíð sem himininn snertir jörðina í barninu sem lagt var í lágan stall í gripahúsi í Betlehem. Barn sem óx upp með fyrirheit á vörum að það gangi með þér veginn á enda, alla daga, alla leið til enda veraldar. Með það í hjartanu erum við og verðum aldrei ein.

Þess vegna varð líka samfélag kirkjunnar til úr anda barnsins, samfélag einlægninnar, samfélag kærleikans, sem er ætlað að virða hvert mannsbarn eins og það sé barnið sjálft í jötunni forðum.

Með þeirri virðingu skapast líka sá friður í heiminum sem við þurfum svo mikið á að halda, og sá friður byrjar með þér, í þínu hjarta, og ekki hvað síst á hinu hljóða andartaki þegar þú með ígrundun og hugleiðingum, minningum og slökun sálar tekur á móti helgi jólanna.

Í kyrrð bænarinnar,
í þögn hjartans,
syngja englarnir lofsöng,
í höfugri kyrrð og hljóðlátum tærleik.
Gleðileg jól!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert