Sundferð á aðfangadegi jóla er rík hefð hjá mörgum.
Sumir fara til að slaka á og ná úr sér mesta jólastressinu í pottunum og gufunni á meðan aðrir vilja synda sína metra til að búa til pláss í næringarbókhaldinu fyrir jólasteikina. Enn aðrir fara með börnin og nýta sturturnar í jólabaðið.
Starfsfólk Seltjarnarneslaugar opnaði dyrnar fyrir sundlaugargestum klukkan átta í morgun og biðu þá nokkrir gestir á bílaplaninu enda er mikil hefð fyrir jólabaðinu í Seltjarnarneslaug að sögn starfsfólks.
Töluvert mikið var að gera í sundlauginni að sögn starfsmanns í afgreiðslu sem sagði sundlaugargesti vera á öllum aldri. Allt gekk stórslysalaust fyrir sig en það var aðallega vindur og snjór sem spilaði aðeins inn í stemninguna að sögn starfsmannsins.
„Það var aðeins meiri kuldi en fólk hefði viljað vera í en allt gekk vel.“