Biskup: Guðleysi er ekki hlutleysi

Guðrún fór yfir hvernig trú hefur fjarlægst almannarýmið á Íslandi …
Guðrún fór yfir hvernig trú hefur fjarlægst almannarýmið á Íslandi síðastliðin ár og segir hún það hafa byrjað með umræðu um samskipti skóla og kirkju. mbl.is/Karítas

„Ég held að hlutlaust samfélag sé ekki til. Guðleysi er nefnilega ekki hlutleysi frekar en trú,“ sagði Guðrún Karls Helgudóttir biskup í prédikun sinni í jólamessu í Dómkirkjunni í Reykjavík í morgun. 

Guðrún fór yfir hvernig trú hefur fjarlægst almannarýmið á Íslandi síðastliðin ár og segir hún það hafa byrjað með umræðu um samskipti skóla og kirkju.

„Fyrir nokkrum árum byrjuðum við smátt og smátt að fjarlægja trú úr almannarými á Íslandi. Almannarýmið átti að verða hlutlaust rými en trúin átti að búa í kirkjum og á heimilum, verða einkamál fólks. Þetta hófst með umræðu um samskipti skóla og kirkju, sem var í raun mikilvæg í samfélagi sem var að breytast. Þetta leiddi m.a. til þess að smám saman urðum við feimin við að ræða trú og trúmál á almannafæri. Trú varð feimnismál,“ sagði Guðrún í dag. 

Hún telur að þetta hafi verið mistök og telur vænlegra fyrir íslenskt samfélag að opna almannarýmið fyrir trú, trúarbrögðum, lífsskoðunum og gildum. 

Kristin trú hefur mótað samfélag Íslendinga frá upphafi

Guðrún fór yfir hvernig kristin trú hefur mótað samfélag Íslendinga frá upphafi þó svo að margt hafi breyst á undanförnum árum og samfélag okkar hafi orðið fjölbreyttara. Þá segir hún mikilvægt að fræða börn landsins um uppruna okkar, sögu og trú þó að það sé ekki nema til þess að þau verði læs á menningu okkar.

„Þegar við útilokum umræðu um kristni og kristinfræði úr almannarýminu sviptum við Íslendinga, nýja og gamla, tækifæri til þess að fræðast um og skilja betur sögu okkar og hvernig menning okkar og gildi byggja á þeim arfi og móta okkar daglega líf.“

Hún segir þó afar mikilvægt að bera umburðarlyndi fyrir öðrum trúarbrögðum og lífsskoðunum og að það sé lykillinn að uppbyggilegri umræðu um ólíka menningarheima og trúarbrögð.  

„Ég held að við verðum mun ríkari sem þjóð ef við opnum almannarýmið fyrir trú og lífsskoðunum. Ef við kennum börnunum okkar kristnifræði og um leið fræðum þau um önnur trúarbrögð og lífsskoðanir. Ef skólar, sem hafa tök á, fari með börn í kirkju fyrir jólin og heimsæki önnur trúarbrögð á þeirra hátíðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert