Ekkert ferðaveður og vegalokanir á jóladag

Appelsínugular viðvaranir eru í gildi.
Appelsínugular viðvaranir eru í gildi. Kort/Veðurstofa Íslands

Þjóðvegur 1 er lokaður til austurs frá Reykjavík nú á jóladagsmorgun, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar, umferdin.is. Eru þar teknar fram vegalokanir allt frá Norðlingaholti, um Hellisheiði og til Hveragerðis.

Sömuleiðis er Þrengslavegur lokaður og Nesjavallaleið. Þjóðvegur 1 er einnig lokaður á Holtavörðuheiði.

Appelsínugular viðvaranir

Appelsínugular veðurviðvaranir Veðurstofunnar eru í gildi á Suðurlandi, Breiðafirði og við Faxaflóa. Er spáð suðvestan 15-25 m/s og dimmum éljum með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum, hvassast í éljahryðjum, að því er segir á vef Veðurstofunnar.

Er þar varað við því að ekkert ferðaveður sé.

Með deginum ætti veðrið að skána eitthvað en þegar klukkan er orðin 18 verða í gildi gular viðvaranir í stað þeirra appelsínugulu.

Gular viðvaranir eru þegar í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og á Suðausturlandi.

Fyrstu viðvaranirnar falla alveg úr gildi á miðnætti og klukkan 6 að morgni annars dags jóla falla þær síðustu úr gildi.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert