Rjúpum og fleiri fuglum hefur fjölgað mikið í Grindavík á síðustu mánuðum og má sjá fjölda fugla á vappi um götur bæjarins, sem sumir eru augljóslega búnir að gera sig heimakomna á svæðinu.
Skýringin á þessu er sú að bærinn hefur að mestu leyti staðið auður í heilt ár, vegna eldsumbrotanna, og þá er náttúran fljót að taka yfir, að sögn líffræðings.
„Þetta var bara pínu magnað, skrýtið og skemmtilegt. Ekki að það sé skemmtilegt að fólk þurfi að flytja úr húsnæðinu sínu, en þegar horft er til fuglanna og lífríkisins, þá var gaman að sjá hvað dýrin eru augljóslega vön að forðast okkur,“ segir Sölvi Rúnar Vignisson líffræðingur í samtali við mbl.is.
Áður var greint frá málinu í Víkurfréttum, en Sölvi fór til Grindavíkur og kynnti sér aðstæður, eftir að blaðamaður þar hafði samband við hann.
Hann segir að vissulega megi sjá dæmi um fuglahópa í byggð, sérstaklega eldsnemma á morgnana, þegar fuglarnir eru á flakki. „En þetta var allt annað, þarna voru fuglar úti um allt,“ segir Sölvi.
„Þetta kom mér skemmtilega á óvart. Það voru æðarfuglar á götunni, liggjandi sultuslakir, og mávar uppi á bílum og húsþökum og álft fyrir utan Nettó.“
Hann segir að fólk sem búi á höfuðborgarsvæðinu sé ekki vant svo mikilli nálægð við þessar fuglategundir, en í jaðri byggðarinnar álpist rjúpur til dæmis stundum inn í garða.
Þá sé það þannig að dýrin séu fljót að læra inn á mannfólkið, sérstaklega klár dýr eins og mávar.
Máli sínu til stuðnings tekur hann dæmi um rannsókn sem var gerð á sílamávum í Evrópu eftir að gps-tæki var fest við þá.
Í ljós kom að mávarnir lærðu að þeir komust í ákveðið æti í verksmiðju á virkum dögum en um helgar flykktust þeir inn í bæinn til að éta franskar af túristum.
„Þeir lærðu inn á þetta. Þeir voru með vikudagatalið á hreinu og létu ekki sjá sig á þessum stöðum þegar það var ekki helgarfrí. Þeir eru ansi skemmtilegir þó að okkur finnist það ekki alltaf,“ segir Sölvi og heldur áfram:
„Þeir eru með erfiðari fuglum að eiga við, því þeir læra á brögðin manns. Það er erfiðara að ná þeim og erfiðara að leika sama leikinn tvisvar við þá.“
Hann segir að almennt sé það þannig að þegar fólk yfirgefi ákveðin svæði þá sé náttúran fljót að taka yfir og tekur Chernobyl sem dæmi, þar sem heil borg þurrkaðist út og fólk hafi ekki snúið til baka. Þar hafi dýralífið hins vegar blómstrað þegar fram liðu stundir.
Aðspurður hvort það sé viðbúið að fuglarnir færi sig aftur úr byggð þegar Grindvíkingar snúa aftur og meira líf færist í bæinn, segir hann erfitt að segja til um það með fullri vissu, en hann geri þó ráð fyrir því.
„Þetta eru dýr sem eru almennt ekki vön mannaumferð og öllu því sem fylgir okkur. Maður sér það líka þegar maður er að skoða fugla, það er auðveldara að nálgast fugla á bíl en fótgangandi. Fuglar eru almennt ekki mikið fyrir spendýr.“
Sölvi telur að eina ástæðan fyrir því að fuglarnir sækja svona mikið inn í bæinn núna, sé af því fólkið fór og umgangurinn í bænum sé minni. Það hafi ekkert með eldgosið sem slíkt að gera eða breytingar á náttúrunni sem hafa átt sér stað vegna þess.
Allt sem mannfólkið gerir, viljandi eða óviljandi, sem veldur því að fuglar koma eða fara hefur áhrif á hegðun þeirra, að hans sögn. Eins og til dæmis bara að slá grasið eða gefa fuglunum.
„Ef þú hættir að slá grasið þitt og aðgengi að ormum fyrir spörfugla minnkar, þá hætta fuglarnir eðlilega að koma í garðinn. Það er ekki endilega bara viðvera sem rekur þá í burtu, heldur getur það verið eitthvað sem við erum að gera. Þeir geta verið hræddir við bílana okkar, dýrin okkar eða bara læti í umhverfi.“