Framkvæmdastjóri Bergsins headspace segist búast við meiri aðsókn í Bergið eftir hátíðarnar. Hún finnur ekki fyrir meiri aðsókn á aðventunni en segir samt sem áður mikið að gera.
Þetta segir Sigurþóra Bergsdóttir í samtali við mbl.is.
Bergið er stuðnings- og ráðgjafarsetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri. Markmið Bergsins er að veita stuðning og fræðslu til ungs fólks á þeirra forsendum.
Spurð hvort það sé meira að gera á aðventunni og yfir jólahátíðirnar svarar Sigurþóra að hún finni ekki fyrir miklum breytingum á því tímabili.
„Þetta er eins og í ágúst eftir verslunarmannahelgina, þá gerist lítið en um leið og skólinn er farinn af stað og allt fer að verða raunverulegra þá koma þau inn í september,“ segir Sigurþóra. Hún tekur fram að það sé samt mikið að gera og einhverjir hafa þurft að bíða fram yfir áramót.
Aðspurð hvort fólk eigi að hafa eitthvað sérstakt í huga yfir hátíðarnar hvað þennan hóp varðar segir Sigurþóra:
„Aðallega að vera nálægt þeim, að fjölskyldan sé saman og að gera hluti saman.“
Hún segir mikilvægt að passa upp á að fjölskyldan hafi tíma til að vera saman.
„Að búa til tækifæri fyrir fjölskyldur til að gera hluti saman og vera saman með jákvæðum og heilbrigðum hætti. Auðvitað gera margir það yfir jólin og þess vegna líður þeim kannski betur á þessum tíma á milli jóla og nýárs.“
Sigurþóra bendir á að heimilisaðstæður séu ekki eins hjá öllum ungmennum og því sé mismunandi hvernig ungmennum líði yfir hátíðirnar.