Gular viðvaranir eru í gildi á Suðurlandi, Faxaflóa og á miðhálendinu vegna hvassviðris og hríðarveðurs.
Á Suðurlandi og Faxaflóa falla þær úr gildi klukkan 9 en á miðnætti á miðhálendinu.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að lægðin sem olli stormi og éljagangi í gær sé nú komin vel áleiðis norður í haf og hefur dregið talsvert úr vindi og éljum. Önnur lægð mun þó myndast skammt suður af Ammassalik í dag og vindur aukast að sama skapi.
Í dag verða suðvestan 15-23 m/s framan af morgni en síðar hægari, 8-15 m/s norðan til síðdegis, en 20-25 m/s syðst. Það verða él sunnan og vestan til framan af degi, en síðan slydda eða rigning með köflum. Það verður úrskomulítið norðaustanlands. Hitinn verður á bilinu 0 til 5 stig síðdegis.
Á morgun verða suðvestan 8-15 m/s, hvassast við suðurströndina. Það verður éljagangur en úrkomulaust að mestu um landið norðaustanvert. Það kólnar í veðri og frost verður 1-8 stig um kvöldið.