Veðrið mun kólna á Íslandi á næstu dögum og frost gæti náð allt að 20 stigum.
Þetta segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á Bliku, í samtali við mbl.is.
„Það kólnar frá og með morgundeginum, snýst í norðanátt og þá á heimskautaloft úr norðri greiða leið að okkur,“ segir Einar.
Hann segir að það verði ekki „afspyrnu kalt“ þó það verði eindregið frost. Á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir 10 stiga frosti á sunnudag og inn til landsins gæti orðið um 20 stiga frost.
Hvar væri það þá?
„Á þessum þekktu kuldapollastöðum. Eins og í Mývatnssveit, Eyjafirði, inni á hálendinu, uppsveitum Suðurlands og Þingvöllum og svo framvegis,“ segir Einar.
Hann segir að fyrir tveimur árum síðan hafi einmitt orðið mjög kalt út um allt land á milli jóla og nýárs.
Þá fór frost niður í 15 stig að morgni gamlársdags í Reykjavík í fyrsta sinn í mörg ár og nú sé spurning hvort að það gerist aftur. Einar telur það þó ólíklegt.
„Þetta eru kaldir dagar og stendur fram á nýja árið,“ segir Einar og bætir við að eitthvað verði af éljum á Norðurlandi og Austurlandi ásamt mögulega einhverri snjókomu.
Hann gerir ráð fyrir talsverðu frosti á landinu fram til þriðja eða fjórða janúar en eftir það séu vísbendingar um breytingar.
„Það eru vísbendingar um að það gæti breyst en það eru líka sumar langtímaspár sem gera ráð fyrir því að það verði eitthvað framhald. Við skulum segja að það sé meiri óvissa en það er ekkert sem bendir til þess að fljótlega á nýju ári verði skörp umskipti með einhverjum lægðagangi hlýrra lofti úr suðri,“ segir Einar.
Einar segir að útlit sé fyrir mjög góð veðurskilyrði til þess að skjóta upp flugeldum á gamlárskvöld á þriðjudag þrátt fyrir talsverðan kulda.
Hann segir að á gamlársdag gæti frost verið um 10 stig á höfuðborgarsvæðinu og þá eru líkur á því að það verði nokkuð heiðskírt.
Á Suðurlandi gæti frost náð 15 stigum og þar verður meiri vindur.