Mikill þrýstingur hefur verið á Þórkötlu

Þórkatla ber fyrir sig að mikill þrýstingur hefði verið á …
Þórkatla ber fyrir sig að mikill þrýstingur hefði verið á félagið til að ganga sem fyrst frá kaupum á eignunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fasteignafélagið Þórkatla segir að æskilegt hefði verið að hugsa betur fyrir geymsluplássi á innbúi þeirra sem seldu eignir sínar í Grindavík til fasteignafélagsins.

Pét­ur Haf­steinn Páls­son, fram­kvæmda­stjóri útgerðarfélagsins Vís­is, gagnrýndi Þórkötlu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Sak­aði hann stjórn­end­ur fast­eigna­fé­lags­ins um að hafa tekið „rang­ar ákv­arðanir“ og sett Grind­vík­ing­um strang­ar kvaðir.

Sagði hann að hundruð tonn úr bú­slóðum Grind­vík­inga hafi ratað á haug­ana, þar sem Grind­vík­ingar hafi þurft að tæma allt úr hús­un­um sín­um.

Þórkatla ber fyrir sig að mikill þrýstingur hefði verið á félagið til að ganga sem fyrst frá kaupum á eignunum svo að Grindvíkingar gætu fest sér annað húsnæði, að því er fram kemur í tilkynningu frá Þórkötlu. 

Skilja að fólk vilji dvelja í húsunum yfir nótt

Þórkatla, sem ann­ast kaup, um­sýslu og ráðstöf­un hús­næðis í Grinda­vík, til­kynnti í nóv­em­ber að þeir sem hefðu selt ­fé­lag­inu hús sín í Grinda­vík gætu nú gert svo­kallaðan „holl­vina­samn­ing“ um af­not af hús­inu og greiða þá aðeins fyr­ir hita og raf­magn. Fólki væri aft­ur á móti ekki heim­ilt að dvelja þar yfir nótt.

„Fasteignafélagið Þórkatla, sem keypti húseignir Grindvíkinga, hefur fullan skilning á því að fólk vilji gjarnan dvelja í fyrrum húsum sínum í bænum yfir nótt. Þetta er hins vegar nokkrum vandkvæðum bundið vegna hættuástandsins sem enn ríkir á svæðinu,“ segir í tilkynningu fasteignafélagsins.

„Samkvæmt lögum bera fasteignareigendur, í þessu tilfelli Þórkatla, ríka ábyrgð á öryggi í eignum sínum. Það er á grundvelli þessarar ábyrgðar sem sú ákvörðun var tekin að fólk geti ekki að sinni dvalið yfir nótt í húsum félagsins í Grindavík.“

Um 920 eignir í eigu félagsins

Sú ákvörðun verði endurskoðuð um leið og kvikusöfnun í Sundhnúkagígum hættir og líkur á eldgosi verði minni.

„Á þeim tímapunkti mun félagið geta hafið sölu og útleigu þeirra húsa sem félagið hefur eignast í Grindavík, til viðbótar við gerð hollvinasamninga.“

Sem stendur hafi verið gerðir um fjörutíu slíkir samningar. Um 920 eignir séu alls í eigu félagsins í bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert