Falleg glitský sáust í morgun í Svarfaðardal við bæinn Velli.
Birta Fróðadóttir arkitekt tók myndirnar og segir hún glitský hafa verið að sjást á svæðinu undanfarna daga að sögn bænda í Svarfaðardal en sjálf er hún gestur á svæðinu.
Á vef Veðurstofu Íslands er glitskýjum lýst sem ákaflega fögrum skýjum sem myndast í heiðhvolfinu, gjarnan í um 15-30 kílómetra hæð.
Sjást þau helst um miðjan vetur, þá um sólarlag eða sólaruppkomu og er litadýrð þeirra mjög greinileg sökum þess að þau eru böðuð sólskini, þó að það sé rökkvað eða jafnvel aldimmt.
Þá myndast glitský þegar það er óvenjukalt í heiðhvolfinu, um eða undir -70 gráður til -90 gráður og eru þau úr ískristöllum eða úr samböndum ískristalla og saltpétursýru-hýdrötum.
Segir enn fremur á vef Veðurstofunnar að kristallarnir í skýjunum beygi sólarljósið, en mismikið eftir bylgjulengd þess.
„Þannig beygir blátt ljós meira en rautt. Rauða ljósið kemur því til okkar undir öðru horni en það bláa, þannig að við sjáum það koma frá öðrum hluta glitskýsins.“