Formaður Neytendasamtakanna segir samtökin reyna að koma sjónarmiðum neytenda að í máli sem varðar búvörulög. Hæstiréttur hafnaði samtökunum að áfrýja dómi héraðsdóms í formi meðalgöngu en benti á aðra mögulega leið fyrir samtökin til að komast að borðinu.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, ræddi við mbl.is um málið.
Hæstiréttur hafnaði fjórum leyfisbeiðendum um áfrýjun dóms Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem búvörulög voru dæmd stjórnskipulega ógild. Þeir sem óskuðu eftir áfrýjun í formi meðalgöngu voru Kaupfélag Skagfirðinga, íslenska ríkið, Búsæld ehf. og Neytendasamtökin.
Hæstiréttur tiltekur í ákvörðunum sínum sérstaklega að það sé ekki útilokað að fyrir hendi sé heimild til þess að krefjast aukameðalgöngu undir rekstri máls Innes og Samkeppniseftirlitsins fyrir Hæstarétti. Rétturinn hefur heimilað áfrýjun dóms Innes og Samkeppniseftirlitsins beint til Hæstaréttar.
„Við munum reyna að koma sjónarmiðum neytenda að og teljum það nauðsynlegt að sjónarmið neytenda komist að í þessu máli. Við munum róa að því öllum árum að sjónarmið neytenda heyrist.“
Aðspurður segir Breki það alls ekki útilokað að samtökin óski eftir áfrýjun héraðsdóms á grundvelli aukameðalgöngu eins og Hæstiréttur bendir á í ákvörðun sinni.
„Þetta er mjög stórt mál og undirliggjandi eru einir stærstu hagsmunir neytenda. Það að Alþingi geti bara kippt úr sambandi samkeppnislögum án umræðu, það er algjörlega galið að það skuli hafa verið hægt.“
Málið á rætur að rekja til búvörulaga sem Alþingi samþykkti í mars. Innes krafðist þess að Samkeppniseftirlitið gripi inn í háttsemi framleiðendafélaga kjötafurða.
Samkeppniseftirlitið varð ekki við kröfu Innes og sagði það vera sökum þess að með breytingum á búvörulögum væru framleiðendafélög ekki lengur á valdsviði Samkeppniseftirlitsins til að grípa til íhlutunar.
Með dómi héraðsdóms, sem Innes og Samkeppniseftirlitið eru aðilar að, voru búvörulögin talin stríða gegn stjórnarskrá. Að mati dómsins hafði frumvarpið um búvörulög ekki fengið þrjár umræður áður en það var samþykkt eins og 44. gr. stjórnarskrárinnar áskilur þar sem það hafði breyst svo mikið við meðferð þingsins.
Með aukameðalgöngu þá gengur þriðji maður inn í mál annarra án þess að gera sjálfstæða kröfu um eigin hagsmuni. Þá leitast hann eftir að verja rétt sinn með því að taka undir kröfur annars hvors upphaflegs aðila.
Hins vegar gengur þriðji maður inn í mál annarra þegar hann krefst meðalgöngu. Í því tilviki er gerð krafa um að úrslit málsins skipti hagsmuni hans máli að lögum.