Búið er að loka Holtavörðuheiði. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar, umferdin.is, og sömuleiðis í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi vestra.
Hjáleið er um Brattabrekku og Laxárdalsheiði. Vegagerðin varar við versnandi akstursskilyrðum á Brattabrekku í kvöld.
Segir á vef Vegagerðarinnar að ástandið sé mjög slæmt á Vatnsskarði og víða í Húnavatnssýslum.
„Ökumenn hafa verið og eru í vandræðum á Vatnsskarði, Siglufjarðarvegi og í Víðidal í Húnaþingi vestra,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Segir þar enn fremur að björgunarsveitir hafi verið kallaðar út til þess að aðstoða ökumennina.
„Ítrekað er við ökumenn að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.“