Samgöngustofa hefur sent drónaflugmönnum upplýsingar um A2-hæfnipróf fyrir dróna sem haldin verða 14.-16. janúar.
Nýjar reglur um drónaflug tóku gildi hér á landi fyrr í þessum mánuði. Öllum sem hafa dróna í umsjá sinni er nú gert að skrá sig inn á flydrone.is og greiða skráningargjald til fimm ára að fjárhæð 5.500 krónur.
Merkja skal alla dróna og þeir sem fljúga stærri drónum þurfa að þreyta hæfnispróf. Með reglugerðinni eru nýjar reglur Evrópusambandsins um flug ómannaðra loftfara innleiddar.
Skráning er þegar hafin í prófin en síðasti skráningadagur er 5. janúar. Verð fyrir prófið er 7.000 krónur.
„Þeir sem hyggjast þreyta prófið þurfa að vera búnir að kynna sér A2-námsefnið sem er aðgengilegt á www.flydrone.is. Við hvetjum alla áhugasama til að tryggja sér pláss í tíma, þar sem takmarkaður fjöldi þátttakenda kemst að,“ segir í tilkynningu Samgöngustofu.