Fæðingafjandsamleg stefna stjórnvalda frá og með ríkisstjórn Park Chung-hee á sjöunda áratug síðustu aldar leiddi til þess að algengasta fjölskyldumynstrið varð hjón með tvö eða þrjú börn, í stað sex eða fleiri barna hjá fyrri kynslóðum. Og á níunda áratugnum, þegar fæðingartíðnin fór fyrst niður fyrir endurnýjunarþörfina, urðu sértækar fóstureyðingar kvenfóstra algengar, þannig að konum fækkaði enn frekar. Hins vegar skýrir ójafnt kynjahlutfall ekki til fulls hvers vegna fæðingartíðni meðal Suður-Kóreumanna heldur áfram að lækka svo mikið, sérstaklega hjá hjónum.
Undanfarin 20 ár hafa stjórnvöld litið á þetta fyrirbæri sem neyðarástand á landsvísu og eytt milljörðum í að hvetja til barneigna. Og þótt enn séu fjölskyldur sem eignast börn er Suður-Kórea að setja heimsmet í lágri fæðingartíðni.
Suðurkóreskar konur skortir almennt grundvallarstuðning út ævina. Barneignir geta þýtt lok starfsferils (ef nokkur er) og að konan verði fjárhagslega háð eiginmanni sínum. Auk þess að leggja miklar greiðslubyrðar vegna umönnunar barna á heimili með einn launaseðil takmarkar þetta í raun starfsval kvenna við heimilisstörf, sem þær fá engin laun eða lífeyri fyrir.
Úrelt velferðarkerfi Suður-Kóreu er einnig mjög háð hefðbundinni fjölskyldugerð, sem styður lítið við einstæðar eldri konur sem hafa eytt mestum hluta fullorðinsævi sinnar heima. Þetta getur verið afar erfitt fjárhagslega fyrir fjölskyldur án fjölskylduföður. Reyndar hafa komið upp nokkur tilvik á karlalausum heimilum þar sem aldraðar mæður og fullorðnar dætur þeirra, sem geta ekki fengið störf með viðunandi launum, hafa framið sjálfsvíg vegna skorts á fjárhagslegum stuðningi.
Nánar er fjallað um málið í Tímamótum sem fylgir Morgunblaðinu um helgina.