Ungahlutfallið hjá heiðagæsum í ár var betra en menn leyfðu sér að vona að sögn Arnórs Þóris Sigfússonar dýravistfræðings hjá Verkís. Vegna hrets í júní var óvissa um hvernig gæsavarpið myndi heppnast hjá heiðagæsum en ungahlutfallið var um 26%.
„Það er þokkalegt, en maður óttaðist að það yrði verra vegna þess að það kom hret akkúrat þegar ungarnir voru sums staðar að koma úr eggjum. 26% er svipað og verið hefur undanfarin ár fyrir utan árið í fyrra, sem var mjög gott hjá heiðagæsinni,“ segir Arnór.
Á heildina litið segir Arnór að útlitið sé ágætt. Niðurstöðurnar séu sístar hjá grágæsinni miðað við það sem búist hafði verið við. Ungahlutfall hjá grágæs var um 47%, sem er yfir meðaltali að sögn Arnórs en er lægsta hlutfall síðan 2014 sem þótti lélegt ár hjá grágæsinni.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.