Neytendur hafa ríkari rétt til að skila vörum sem voru keyptar í netverslun, jafnvel á útsöludögum, heldur þeim sem voru keyptar í raunheimum.
Neytendasamtökunum berast oft fyrirspurnir um skilarétt í kringum útsöludaga eftir hátíðirnar, og þá koma gjarnan upp mál þar sem neytendum er neitað að skipta gjöf út fyrir vöru á útsölu.
„Ef þér er neitað að nota inneignanótuna á útsölu þá áttu samt að fá fullt verð á inneignanótuna. Og svo geturðu mætt aftur eftir útsölu,“ segir Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is.
En þegar maður kaupir á netinu er sagan önnur. „Þú átt ríkari rétt,“ segir framkvæmdastjórinn. „Þú færð vöruna og þá hefurðu 14 daga til að skila vörunni.“
Hún bætir við að jafnvel þó vara sé keypt á útsölu í netverslun, þá hafi kaupandinn enn rétt á að skila henni „af því að hún er keypt á netinu. Það trompar.“
„Það er ekkert í lögum um að það megi skila vöru sem ekki er gölluð, en þetta er bara hefð að verslanir leyfi þetta,“ segir Brynhildur.
Verslanir miða þó gjarnan við leiðbeinandi verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur sem viðskiptaráðuneytið gaf út árið 2000. Brynhildur segir ver
Brynhildur segir að þessar leiðbeinandi reglur séu mjög góðar, þó þær séu orðnar gamlar. Áður en þær litu dagsins ljós hafi ríkt „algjört villta vestur“ í þessum málum.
Samkvæmt þeim hafa neytendur að lágmarki 14 daga skilafrest frá afhendingu, gera gjafamerki kassakvittun óþarfa við skil og miðast inneignarnótur við upprunalegt vöruverð. Auk þess kveða verklagsreglunar á um að gjafabréf og inneignarnótur gildi í allt að fjögur ár frá útgáfudegi en að skilaréttur taki ekki til útsöluvöru.
Brynhildur segir þó að æ fleiri fyrirspurnir sem samtökunum hafi borist að undanförnu varði gjafakort sem starfsfólk hafi fengið í jólagjöf frá vinnustöðum. Þá sé spurt hvort verslanir megi neita að taka við gjafakortum á afsláttardögum.
„Þarna er bara fyrirtæki að kaupa af fyrirtæki – þetta eru ekki neytendakaup – og ef það er inni í samningum að það megi ekki nota það í outlet eða tilteknum verslunum, þá er það bara þannig.“