Tilkynnt var um umferðarslys í Kópavogi í dag þar sem ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og hafnaði hún á vegriði. Bifreiðin reyndist óökufær eftir atvikið en ekki er vitað um líðan ökumannsins.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem greint er frá verkefnum lögreglu frá klukkan 5 í morgun til klukkan 17. Alls voru 26 mál bókuð í kerfi lögreglu á tímabilinu og gistir einn í fangaklefa.
Lögreglustöð eitt, sem sinnir útköllum í stórum hluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi, stöðvaði mann grunaðan um akstur undir áhrifum áfengis. Hann var þó látinn laus eftir blóðsýnatöku.
Lögreglustöð fjögur, sem sinnir verkefnum í Grafarvogi, Árbæ, Mosfellsbæ og á Kjalarnesi, stöðvaði sömuleiðis mann grunaðan um akstur undir áhrifum fíkniefna en hann var einnig látinn laus að blóðsýnatöku lokinni.