Vilhjálmur Árnason, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins, segir ólík sjónarmið uppi innan Sjálfstæðisflokksins hvort fresta eigi landsfundi, sem er fyrirhugaður í lok febrúar, eða ekki. Sjálfur vill hann að landsfundur fari fram fljótlega, annaðhvort í febrúar eða vor.
Í samtali við mbl.is segir Vilhjálmur að allir formenn málefnanefnda Sjálfstæðisflokksins hafi verið boðaðir saman til að ræða mögulega frestun landsfundar flokksins sem á að fara fram í lok febrúar. Segir hann að miðstjórn flokksins hafi ekki borist neitt formlegt bréf um frestun en að ólík sjónarmið séu innan flokksins um hvort fresta eigi fundinum eða ekki.
„Einhverjir hafa nefnt að það væri heppilegra að hafa þetta nær vorinu eða næsta haust, bæði út af veðri en líka af því það er svo stutt frá kosningum. Fólk gerði ráð fyrir því að landsfundur yrði upptaktur kosninga hvort sem þær yrðu í vor eða haust. Aðrir horfa hvort við þurfum ekki öflugan upptakt fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar, sem eru vorið 2026. Aðrir segja að fyrst að úrslitin [alþingiskosninganna] fóru svona þá þurfum við að koma strax saman og að engin ástæða sé til að fresta fundinum,“ segir Vilhjálmur.
Síðasti landsfundur Sjálfstæðisflokksins fór fram í nóvember árið 2022 en hann er alla jafna haldinn á tveggja ára fresti. Á síðasta landsfundi tókust þeir Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson á um formannssætið þar sem Bjarni hafði betur með 59% atkvæða.
En þú sjálfur, telur þú ástæðu til að fresta fundinum fram á vorið eða jafnvel næsta haust?
„Mér finnst það bara fara eftir því hvað við viljum fá út úr þessum fundi. Ætlum við bara að koma saman, sem er alltaf gott og gagnlegt þegar sjálfstæðismenn koma saman. Ég myndi vilja sjá að við héldum fund fljótlega hvort sem það er í febrúar eða vor og svo annan í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. En ég er alveg til í að hlusta á sjónarmið ef fólk telur að það komi málefnalega betur út, mér finnst það skipta mestu máli núna að flokkurinn komi málefnalega sterkur fram en láti þetta ekki snúast um innri deilur á milli fólks. Það er komið nóg af því.“
Spurður hvort tillagan um frestun á landsfundi komi frá ákveðnum armi flokksins segir Vilhjálmur svo ekki vera heldur séu ólík sjónarmið uppi þvert á flokkinn.
„Við eigum að einbeita okkur að því að taka ákvörðun um það hvað er málefnalega best fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sjálfstæðisstefnuna. Eftir niðurstöðu þessara kosninga eigum við að beita kröftum okkar þangað, að sameinast innbyrðis að berjast fyrir grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins,“ segir Vilhjálmur að lokum.