Ökumaður sem reyndist einungis vera 16 ára gamall var stöðvaður af lögreglu í Árbænum. Drengnum var ekið heim þar sem móðir hans tók við honum.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem greint er frá verkefnum lögreglu frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun.
Mikið var um að vera í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Tveir voru handteknir vegna líkamsárása. Báðir voru þeir vistaðir í fangaklefa. Þá var einn einstaklingur handtekinn og vistaður í fangaklefa fyrir að veitast að lögreglumanni í miðbænum. Enn annar var handtekinn í miðbænum vegna óláta og slagsmála. Ekki var hægt að fá framburð frá honum sökum ölvunar og var hann vistaður í fangaklefa.
Í hverfi 104 voru tveir handteknir og vistaðir í fangaklefa vegna gruns um ölvun við akstur en hvorugur þeirra vildi kannast við að hafa ekið bifreiðinni.
Í Garðabæ var tilkynnt um þjófnað úr verslun. Málið var afgreitt á vettvangi.
Þá kviknaði eldur í bifreið í Garðabæ. Slökkvilið kom á staðinn og slökkti eldinn. Engin meiðsli urðu á fólki.
Í Breiðholti var hópur ungmenna til vandræða í strætó. Málið var afgreitt með aðkomu foreldra og barnaverndar.