Agnar Már Másson
Skjálfti af stærðinni 3,8 reið yfir Bárðarbungu um klukkan hálffimm í dag. Aukin virkni við eldstöðina síðustu misseri bendir til þess að hún sé að búa sig undir eldgos.
Virkni í Bárðarbungu hefur ekki verið meiri síðan 2015, þegar stærsta eldgos síðari alda stóð yfir í Holuhrauni. Landris og skjálftar gefa til kynna virkt innflæði kviku í eldstöðina Bárðarbungu.
„Það er alltaf ákveðin viðvörun þegar svona gerist,“ segir Böðvar Sveinsson náttúruvársérfræðingur við mbl.is
„En þetta er ekki þannig að við setjum allt af stað,“ bætir hann við enda eru stórir skjálftar vissulega orðnir algengir á svæðinu.
En virknin hefur færst í aukana á síðustu árum.
Fjórir skjálftar um eða yfir 5 að stærð hafa riðið yfir í Bárðarbungu í ár: einn í apríl, annar í september, sá þriðji í október og sá fjórði í byrjun desember. Síðasti skjálfti yfir 3 að stærð varð 19. desember, eins og mbl.is greindi frá á þeim tíma.
Mælar Veðurstofunnar sýna landris umhverfis öskjuna sem gefi til kynna þrýsting undir yfirborðinu.