„Svona til að byrja með þá kannski erum við alveg róleg yfir þessu. Svo sjáum við til hvort þetta heldur áfram eða ekki,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, um jarðskjálftahrinuna við Eldey.
Hann segir að enn sem komið er sé jarðskjálftahrinan „hefðbundin hrina“ og nefnir hann að stórar hrinur eins og eru að sjást núna verði á svæðinu á nokkurra mánaða fresti.
„Þetta er náttúrulega á Atlantshafshryggnum og þetta er rétt við Eldey þannig að þarna er eldvirkni,“ segir Benedikt en nefnir að það sé hins vegar spurning um hvort hrinan tengist kvikusöfnun eða ekki.
Segir Benedikt að Veðurstofa Íslands hafi verið að reka GPS-stöð og skjálftamæli í Eldey síðasta árið og að engin merki séu þar í nágrenni um að kvika sé að safnast saman.
„Þetta er frekar hefðbundið. Við erum búnir að horfa á þetta árum saman án þess að það gerist neitt meira.
En svo kannski gerist á endanum eitthvað meira en við vitum það náttúrulega ekkert fyrir fram. Eins og staðan er núna þá bara fylgjumst við með þessu og sjáum hvort þetta deyr bara út eins og flestar aðrar hrinur eða hvort það verður eitthvað meira,“ segir Benedikt.
Aðspurður segir hann misjafnt hvað hrinurnar standi yfir lengi. Sumar komi mjög snöggar en aðrar geti enst í einhverja daga.
„Við höfum alveg séð einhverjar hrinur halda áfram í svolítinn tíma.“