Aldrei hefur verið jafn gott hvalalíf í Eyjafirði og nú á síðustu 15 árum. Sést hefur til hvals í firðinum 20 mánuði í röð.
Þetta segir Freyr Antonsson, framkvæmdastjóri Arctic SeaTours, í samtali við mbl.is.
Arctic SeaTours hefur boðið upp á hvalaskoðun í Eyjafirði frá árinu 2009. Árið 2014 byrjaði fyrirtækið að bjóða upp á slíkar ferðir allan ársins hring.
Freyr segir að oftast hafi lítið sést til hvals í firðinum í mars og apríl en að árið í ár hafi verið undantekning á því og segir hann að sést hafi til hvals í öllum hvalaskoðunum þá mánuði.
Fyrirtækið hefur farið ríflega 880 hvalaskoðunarferðir á árinu en í aðeins þremur þeirra hefur ekki sést til hnúfubaks.
„Síðan ég byrjaði árið 2009 er þetta langbesta árið. Það eru þrjár ferðir á þessu ári þar sem við höfum ekki séð hnúfubak og þar af voru tvær ferðir í febrúar og svo ein í júlí, sem var bara óheppni - það var bara þoka,“ segir Freyr.