„Það er mikil pólitík í mér“

Lilja ræddi við blaðamann eftir lyklaskipti í menningar- og viðskiptaráðuneytinu …
Lilja ræddi við blaðamann eftir lyklaskipti í menningar- og viðskiptaráðuneytinu í síðustu viku. mbl.is/Ólafur Árdal

Lilja Dögg Alfreðsdóttir stendur á tímamótum. Hún hefur verið ráðherra og þingmaður undanfarin níu ár, en náði ekki kjöri í nýafstöðnum þingkosningum. Hún hefur ekki ákveðið hver hennar næstu skref verða en útilokar hins vegar ekki framboð til Alþingis síðar meir.

Að mati Lilju er ljóst að Framsóknarflokkurinn þurfi að fara í skipulagða uppbyggingarvinnu og taka sér aftur sterka stöðu í íslenskum stjórnmálum út frá gildum sínum. Hún er vongóð um að Framsókn nái vopnum sínum á ný og telur sóknarfæri fram undan fyrir flokkinn. 

Blaðamaður mbl.is settist niður með Lilju eftir lyklaskipti í menningar- og viðskiptaráðneytinu í síðustu viku og ræddi við hana um feril hennar, framtíðina og stöðu íslenskra stjórnmála.

Farsæll ferill í pólitík

Árið 2016 var stormasamt í stjórnmálum og viðburðaríkt í lífi Lilju. Hún kom óvænt inn á stóra svið stjórnmálanna á tímum sem einkenndust af átökum og kreppuástandi í íslenskum stjórnmálum.

Í apríl 2016 tók hún við embætti ut­an­rík­is­ráðherra í nýrri rík­is­stjórn Sig­urðar Inga Jó­hanns­son­ar sem mynduð var eftir afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Sama ár, í byrjun október, hlaut Lilja kjör til varaformanns og Sigurður Ingi tók við embætti formanns af Sigmundi Davíð, sem síðar sagði sig úr flokknum og stofnaði Miðflokkinn. 

Lilja kom óvænt inn á stóra svið stjórnmálanna. Hér sést …
Lilja kom óvænt inn á stóra svið stjórnmálanna. Hér sést hún ganga inn á sinn fyrsta ríkisráðsfund á Bessastöðum árið 2016. Hún tók við utanríkisráðuneytinu af Gunnari Braga Sveinssyni sem fór í annað ráðuneyti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir alþingiskosningarnar í lok október 2016 var Lilja fyrst kjörin á Alþingi fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tók við völdum eftir kosningarnar, en hún var ekki lengi við stjórnvölinn. Landsmenn gengu aftur til kosninga ári síðar, 28. október 2017. Þá var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna mynduð. Lilja var skipuð ráðherra á ný og tók við embætti mennta- og menningarmálaráðherra. Eftir alþingiskosningarnar 2021, þegar ríkisstjórnin fékk endurnýjað umboð, var ráðuneytum fjölgað um eitt og Lilja varð ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, sem síðar varð kallað menningar- og viðskiptaráðuneytið. 

Lilja missti þingsæti sitt eftir kosningarnar 30. nóvember. Flokkurinn hlaut 7,8% greiddra atkvæða og fimm þingmenn. Um er að ræða verstu kosningu flokksins frá upphafi, en Framsóknarflokkurinn er elsti stjórnmálaflokkur landsins, stofnaður árið 1916.

Eftir kosningarnar 2017 fór Lilja í mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hún …
Eftir kosningarnar 2017 fór Lilja í mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hún tók við af sjálfstæðismanninum Kristjáni Þóri Júlíussyni. mbl.is/Árni Sæberg

Full eftirvæntingar

Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins ætlar að leggja niður menningar- og viðskiptaráðuneytið. Málaflokkar ráðuneytisins munu skiptast á milli tveggja ráðuneyta, atvinnuvegaráðuneytis og menn­ing­ar-, ný­sköp­un­ar- og há­skólaráðuneytis.

„Í þessu ráðuneyti starfar frábær hópur fólks þannig að ég mun klárlega sakna þeirra og þessara málaflokka. Hins vegar er það svo þegar þú ert búin að vera á þessum vettvangi í að verða tæp níu ár þá ertu líka alveg tilbúinn að taka ný skref og breyta eitthvað til,“ segir Lilja.

Hún segist ekki vera búin að ákveða hvað taki nú við hjá sér. Hún hlakki þó til næstu skrefa. „Ég viðurkenni það alveg að ég er líka full eftirvæntingar um breytta tíma í mínu lífi og fyrir fjölskylduna mína.“ Lilja er gift Magnúsi Óskari Hafsteinssyni hagfræðingi og eiga þau tvö börn.

Flokksmenn verið í sambandi

Lilja er varaformaður Framsóknar, en síðasta flokksþing Framsóknar, þar sem kosið var til forystu, var haldið í apríl. Samkvæmt reglum flokksins skal flokksþing haldið annað hvert ár, og á því næst að fara fram árið 2026. Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra og ritari Framsóknar, hlaut ekki heldur kjör til Alþingis. Hann hefur gefið það til kynna að hann ætli að segja skilið við stjórnmálin og muni ekki gefa kost á sér í embætti ritara á næsta flokksþingi.

En hvað með Lilju? Ætlar hún eins og Ásmundur Einar að láta gott heita?

„Ég hef ekki tekið ákvörðun um það, nema síður sé enda kjörin varaformaður flokksins. Staðreyndin er sú að fjöldi flokksmanna hefur haft samband við mig og hvatt mig til þess að vera áfram í stjórnmálum. Flokksmenn hafa auðvitað fulla trú á því að við munum ná vopnum okkar aftur. Þannig að ég er auðvitað að hlusta á fólkið sem hefur haft samband við mig um allt land og ætla að meta stöðuna. En ég hef líka tekið ákvörðun um að gefa þessu ákveðinn tíma, af því að þetta eru miklar breytingar og líklega einhver óvissa fram undan. Ég get stundum verið mjög fljót að taka ákvarðanir og þess vegna hefur þessi vettvangur hentað mér mjög vel. Nú er ég bara að skoða hvað passar inn í þetta nýja og spennandi líf og ætla ekki að taka ákvörðun um það í einhverjum flýti,“ segir Lilja.

Hún útilokar því ekki að halda áfram í stjórnmálum. „Það er mikil pólitík í mér og ég hef gaman af stjórnmálum,“ segir Lilja.

Lilju þykir vænt um fólkið í flokknum. Hún er með …
Lilju þykir vænt um fólkið í flokknum. Hún er með stórt framsóknarhjarta og útilokar ekki að bjóða sig fram aftur til Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja segir úrslit kosninganna ekki hafa komið á óvart. Framsóknarflokkurinn þurfi að fara yfir stöðu sína og meta horfurnar í íslenskum stjórnmálum. „Ég fann sterkt fyrir því í aðdraganda kosninga að það væri ákall um breytingar. Ég fann að ákveðnu tímabili væri að ljúka og nýtt að hefjast. Við í Framsókn þurfum auðvitað að fara mjög gaumgæfilega yfir það hvernig pólitíkin lítur út og endurheimta pólitískt erindi okkar.“ 

Á nýju ári ætlar hún að ræða stöðuna við flokksmenn. „Ég er að fara að tala enn frekar við fólkið í flokknum, heyra í því hljóðið, hvernig flokksfélagar mínir eru stemmdir og hvernig þeir meta núverandi ríkisstjórnarsamstarf. Fyrir flokk eins og Framsókn þá eru mikil sóknarfæri.“

Framsóknarkona frá fimm ára aldri

Sama hver næstu skref verða fylgist Lilja vel með stjórnmálum, eins og hún hefur gert frá barnsaldri. Hún kveðst hafa haft áhuga á stjórnmálum frá fimm ára aldri. Framsókn hafi alla tíð átt hennar hjarta. „Ég gleymi því aldrei að þegar mér fannst spjótin beinast óþarflega mikið að Óla Jó [Ólafi Jóhannessyni, þá formanni Framsóknar] forsætisráðherra á þeim tíma. Þá var ég ekki mjög glöð.“

Spurð hvort hún muni, eins og ýmsir fyrrverandi þingmenn, deila skoðunum sínum á málum líðandi stundar á samfélagsmiðlum segir Lilja að það muni fara eftir því hvernig mál hjá henni skipast. Nefnir Lilja að áður en hún hafi farið í stjórnmálin hafi hún starfað hjá Seðlabankanum þar sem hún hafi tileinkað sér að halda sínum stjórnmálaskoðunum fyrir sig. „Þannig að ég á auðvelt með að skipta um hlutverk.“

Notið hverrar mínútu

Níu ár í stjórnmálum er nokkur tími. En tíminn líður hratt. „Mér finnst þetta hafa liðið eins og 18 mánuðir. Það hafa verið mikil forréttindi að starfa fyrir fólkið í landinu og móta skýra framtíðarsýn í lykilmálaflokkum þjóðarinnar,“ segir Lilja.

Hún hefur notið tímans og lært margt.

„Það sem var mér mest framandi við að taka þátt í stjórnmálum var að vera orðin opinber manneskja. Það er mjög stórt skref sem þú tekur vegna þess að þá ertu í vinnunni alveg frá því þú tekur við sem kjörinn fulltrúi eða ráðherra og í raun þar til þú skilar þeim lyklum. Þá ertu í vinnu fyrir fólkið í landinu allan þann tíma. Það eru núna búin að vera tæp níu ár hjá mér og ég hef notið þess hverja einustu mínútu og merkilegast að kynnast breiðum hópi fólks um allt land. Auðvitað hef ég þurft að takast á við áskoranir. Í heildina hefur þetta verið alveg ótrúlega lærdómsríkt og ánægjulegt að starfa bæði með mínu samstarfsfólki í ríkisstjórn og ég tala nú ekki um með fólkinu í þessum þremur ráðuneytum sem ég hef stýrt. Það er gaman og ánægjulegt að líta yfir þetta tímabil og sjá hverju ég náði að koma í gegnum þingið.“

Spurð hvort eitthvað sérstakt standi upp úr þegar hún líti yfir farinn veg segir Lilja: „Samvinnan við fólkið í landinu að því að vinna að framfaramálum.“

Ferillinn hefur verið fjölbreyttur og verkefni ráðherra allskonar.
Ferillinn hefur verið fjölbreyttur og verkefni ráðherra allskonar. Ljósmynd/Aðsend

Hljóð og mynd fara ekki saman

Ný ríkisstjórn kynnti stjórnarsáttmála sinn á blaðamannafundi í þar síðustu viku. 

Lilja er að sjálfsögðu búin að gaumgæfa stefnumál og greiningu nýrrar stjórnar. „Það kom mér á óvart hvað efnahagskaflinn var rýr vegna þess að það sem mestu máli skiptir á Íslandi er að við séum með kraftmikinn hagvöxt, sem hefur verið einkennandi fyrir þá kaupmáttaraukningu sem við höfum notið,“ segir hún.

Nefnir hún að rætt sé um að ná halla á ríkissjóði niður sem fyrst í sáttmálanum. Hins vegar sé ljóst að einnig verði farið í mikil útgjöld á kjörtímabilinu. „Ég sé ekki alveg að hljóð og mynd fari saman í því sem formenn þessara þriggja flokka sögðu og hvernig þetta fer svo saman við öfluga hagstjórn.“

Einnig setur hún spurningamerki við útfærslu auðlindagjalda sem ríkisstjórnin boðar á tvær stærstu útflutningsgreinar landsins, annars vegar ferðaþjónustu og hins vegar sjávarútveg. „Ég hefði alltaf talið að það hefði verið skynsamlegra að vera búin að reikna þau út og kynna,“ segir Lilja og nefnir að ekki sé gott að skapa óvissu fyrir þessar tvær atvinnugreinar. Þá sé ekki skynsamlegt að bæta komugjöldum á ferðaþjónustuna þar sem verðlag hér sé mjög hátt. „Það mun klárlega rýra samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar og það er ferðaþjónustan sem heldur gjaldeyrismarkaðnum gangandi enda skapar greinin um 33% af gjaldeyri inn í þjóðarbúið.“

„Það kom mér á óvart hvernig þau nálgast efnahagsstjórn landsins,“ segir hún.

Lilja hefur mikinn áhuga á efnahagsmálum, en hún er með …
Lilja hefur mikinn áhuga á efnahagsmálum, en hún er með meistaragráðu í alþjóðahagfræði frá Columbia-háskóla. Hún efast um efnahagsstefnu nýrrar ríkisstjórnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formenn stjórnarflokkanna funduðu stíft saman í þrjár vikur. Vinnuhópum var komið á laggirnar, en eftir að þeir skiluðu af sér var hafist handa við að skrifa stjórnarsáttmála. 

Lilja segir auðséð að formenn stjórnarflokkanna nái vel saman, en henni hefði þótt eðlilegra að hleypa væntanlegum ráðherrum frekar að borðinu. „Ég held að það sé alltaf best að hafa ráðherra með í því að móta stefnuna,“ segir hún.

Vegnað betur sem sjálfstæð þjóð

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er kveðið á um að þjóðar­at­kvæðagreiðsla um fram­hald viðræðna um aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu fara fram eigi síðar en árið 2027. Lilja hefur sínar efasemdir um þessi áform enda mikil óvissa í alþjóðamálunum.

„Ég tel að það muni fara ofboðslega mikil vinna hjá Stjórnarráðinu og ríkisstjórnarflokkunum í að selja kjósendum að það sé skynsamlegt að halda aðildarviðræðum áfram, en það mun þýða að mörg ráðuneyti verða mjög upptekin af því. Hvað gerir ríkisstjórn ef aðild er hafnað? Hvað gerir utanríkisráðherra þegar hann tapar þeirri kosningu - svo getur hann líka unnið þá kosningu. En það er mjög erfitt fyrir ríkisstjórn að tapa kosningu. Það þekkjum við vel frá árunum 2009 til 2013.“

Hún telur að skynsamlegast væri að hafna aðild að ESB.

„Utanríkismál hafa ekki verið bitbein í íslenskum stjórnmálum en þau verða það klárlega vegna þess að sjálfstæði þjóðarinnar er henni gríðarlega mikilvægt. Þegar þú horfir á söguna, alveg frá landnámi og til dagsins í dag, þá hefur okkur ætíð vegnað betur sem sjálfstæð þjóð. Það þarf að standa vörð um auðlindir þjóðarinnar og gæta þess að á Íslandi séu sköpuð verðmæti sem nýtast fólkinu í landi.“

Lilja var utanríkisráðherra í níu mánuði.
Lilja var utanríkisráðherra í níu mánuði. Mynd/Sameinuðu þjóðirnar/Rick Bajornas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert