Brim Hótel í Skipholti er falt fyrir 1,1 milljarð króna.
Með sölu hótelsins á að fjármagna fyrirhugaða uppbyggingu hótels í Þrastalundi skammt frá Selfossi.
Þetta segir í tilkynningu frá Sverri Einari Eiríkssyni, rekstraraðila Brims Hótels.
Áformar hann að byggja þrjú þúsund fermetra hótel á Suðurlandinu með alls 84 herbergjum.
Skipholt 27, Reykjavík - mbl.is
„Þetta nýja hótel verður fyrsta flokks og mun innihalda stór og rúmgóð herbergi með stórkostlegu útsýni, þægilegu og hlýlegu umhverfi, ásamt heilsulind með heitum pottum og gufuböðum. Einnig verður að finna líkamsræktaraðstöðu, glæsilegan móttökusal með bar og léttum veitingum, ásamt góðri aðstöðu fyrir starfsfólk,“ segir í tilkynningunni.
Þá mun veitingastaðurinn Þrastalundur sjá um veitingar og morgunmat fyrir gesti hótelsins.
„Þessi ákvörðun markar spennandi skref í framtíðarsýn okkar fyrir Þrastalund. Með hótelinu munum við skapa fullkomna blöndu af lúxus og náttúruupplifun fyrir bæði Íslendinga og ferðamenn.“
Brim Hótel komst í fréttirnar fyrr á þessu ári en í apríl var hótelinu lokað ítrekað af lögreglu þar sem starfsleyfi var ekki fyrir hendi.
Í samtali við mbl.is segir Sverrir Einar að um misskilning hafi verið að ræða sem hafði sáralítil áhrif á reksturinn.
„Það var einhver smá misskilningur þar sem það kom í ljós að það var ekki rekstrarleyfi til staðar á þeim tíma en svo var því bara kippt í lag og hótelið er með fullt rekstrarleyfi.“
Sverrir Einar á fasteignina þar sem veitingastaðurinn Þrastalundur er rekinn á Selfossi og segist hann spenntur fyrir því að hefja frekari uppbyggingu á svæðinu.
Verið sé að afla leyfa núna og teikna upp en uppbygging hótelsins verður svo fjármögnuð með sölu Brims Hótels sem er falt á 1,1 milljarð króna en ekki 1,1 milljón króna eins og stóð upprunalega á fasteignavef mbl.is. Segir Sverrir innsláttarvillu útskýra þann mun.
„Það vantaði nokkur núll hjá honum.“