„Við erum ekki búin að stoppa í allan dag,“ segir Kristján Kristjánsson, hjá árekstur.is en mikið er að gera hjá starfsfólki vegna árekstra um allt höfuðborgarsvæðið.
„Ég skil eiginlega ekkert í þessu, því það er engin umferð,“ segir Kristján.
Líkt og höfuðborgarbúar hafa orðið varir við er afar snjóþungt utandyra og vegir víða hálir í bland við svæði sem eru þungfær.
Að sögn Kristjáns hafði fyrirtækið þegar farið í um 30 útköll vegna árekstra um klukkan hálf þrjú. „Það voru 15 árekstrar strax í morgun. Svo er þetta búið að vera samfellt síðan þá,“ segir Kristján. Til samanburðar segir hann að fyrirtækið fari í 20-25 útköll á 12 tíma vinnudegi þegar aðstæður eru varasamar.
„Nú er dagurinn um það bil hálfnaður og við erum komin yfir það sem gerist á heilum degi þegar umferðin er eðlileg,“ segir Kristján.
Hann segir seinni part umferðarinnar eftir og á hann því von á enn fleiri útköllum vegna árekstra. „Það er mikið um að bílar séu að renna inn á gatnamót fyrir bíla, svo eru þetta náttúrlega aftanákeyrslur líka,“ segir Kristján.
Að sögn hans er enn of mikið um illa búna bíla.
„Sumt fólk er enn að keyra um á sumardekkjum. Ég trúi varla að ég sé að segja þetta í lok desember. En fólk er misjafnt og við erum að sjá fólk á illa búnum bílum til vetraraksturs.“